Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 15:53:26 (402)

2000-10-11 15:53:26# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), PM
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Páll Magnússon:

Herra forseti. Starfsumhverfi Ríkisútvarpsins hefur breyst mikið undanfarin ár. Með frjálsri samkeppni ljósvakamiðla hefur stofnunin mætt algjörlega nýjum aðstæðum. Með sífellt meira framboði ljósvakaefnis hlýtur hlutverk Ríkisútvarpsins að breytast. Framsfl. hefur markað þá stefnu í samþykktum sínum að standa vörð um Ríkisútvarpið sem fjölmiðil í þjóðareign. Með þeirri afstöðu hefur verið lögð áhersla á öryggishlutverk stofnunarinnar, framlag hennar til menningarmála og þjónustu við alla landsmenn hvar á landi sem þeir búa.

Við þær breyttu aðstæður sem ég hef áður lýst hlýtur að eiga sér stað umræða um hlutverk Ríkisútvarpsins og rekstrarform þess. Það er eðlilegt að spurt sé hvort ríkið eigi að standa í rekstri dægurmálaútvarps þegar slíkum stöðvum hefur fjölgað svo ört sem raun ber vitni. Því mætti segja að Rás 2 gegndi því eina hlutverki að þjóna öllum landsbyggðum, meðan flestar hinna frjálsu stöðva starfa einungis í þéttbýli.

Hvað varðar rekstrarformið hlýtur einnig að koma til greina að breyta því. Í því sambandi væri rétt að skoða í hvaða formi rekstur ríkisfjölmiðla á sér stað í löndunum í kringum okkur. Í Bretlandi er starfandi þekktasti ríkisfjölmiðill heims. BBC er sjálfseignarstofnun og að stjórn hennar koma fulltrúar atvinnulífs, almannasamtaka, landshluta, háskóla og menningarlífs. Það er auðvitað mjög ólíkt þeirri skipan útvarpsráðs sem við þekkjum. Fyrirkomulagið í Bretlandi hefur gefist svo vel að það stóð meira að segja af sér einkavæðingarhrinu Margrétar Thatcher, fyrrv. forsætisráðherra.

Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað um Ríkisútvarpið í dag hefur mest farið fyrir þeirri stöðu sem stofnunin er í fjárhagslega. Það er ljóst að rekstur hennar hefur ekki gengið nægilega vel og samkvæmt fjárlagafrv. verður að hagræða í rekstri svo ekki verði farið út fyrir væntanleg fjárlög. Slík hagræðing hlýtur þó að vera möguleg þegar stofnunin hefur um 2,7 milljarða kr. til rekstursins.

Hallarekstur undanfarinna ára er áhyggjuefni og verður auðvitað að taka enda annaðhvort með auknu framlagi til rekstrar eða minni umsvifum.

Herra forseti. Framsfl. hafnar einkavæðingu Ríkisútvarpsins. En ég legg áherslu á að forustumenn flokksins hafa lýst yfir vilja til breytinga á formi þess og hlutverki.