Málefni Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 11. október 2000, kl. 16:11:44 (410)

2000-10-11 16:11:44# 126. lþ. 8.91 fundur 40#B málefni Ríkisútvarpsins# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki neinu við það að bæta sem ég sagði í upphafi þessarar umræðu. Það hefur ekkert komið fram í umræðunni sem mér finnst þess eðlis að ég þurfi að bregðast við því öðruvísi en ég gerði í upphafsorðum mínum. Verið er að vinna að því að breyta rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins. Ég hef margsinnis tekið það fram á Alþingi að ég tel skynsamlegt að fara þá leið sem farin hefur verið á Norðurlöndunum að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins og þannig skapaðar nýjar forsendur til þess að sækja fram.

Það kom einnig fram í máli manna að ýmsir eru þeirrar skoðunar að hækka beri afnotagjöldin og það beri að ganga þannig til verks að þau séu hækkuð. Ég lýsti því hvaða vandi þar kemur til þegar menn líta á efnahagsmálin í heild sinni og þróun verðlags í landinu. En Ríkisútvarpið hefur síðan hinn möguleikann til tekjuöflunar sem felst í auglýsingaöflun og kostun þátta og ég sé ekkert athugavert við að Ríkisútvarpið nýti sér þau tækifæri sem það hefur lögum samkvæmt til þess að afla sér tekna. Ég skil það ekki þegar menn berja sér hér annars vegar á brjóst og teljast vera sérstakir talsmenn stofnunarinnar og finnst síðan mjög einkennilegt að hún nýti sér þau tækifæri sem hún hefur á hinum almenna markaði til þess að afla sér aukinna tekna.

Ég er þeirrar skoðunar líka að það eigi að líta til þess þegar nýtt frv. verður kynnt og lagt fram og að þá fari menn í umræður um hvernig eigi að fjármagna Ríkisútvarpið og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að sú leið verði farin að fjármagna það alfarið úr ríkissjóði.