Þátttaka Íslendinga í þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:36:40 (1106)

2000-11-01 15:36:40# 126. lþ. 18.11 fundur 34. mál: #A þátttaka Íslendinga í þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég beini fsp. til hæstv. umhvrh. sem lýtur að mögulegri aðild Íslands að Kyoto-bókuninni um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Tilefni spurningarinnar er að nú er fram undan 6. aðildarríkjaþing loftslagssamningsins en það verður haldið í Haag í Hollandi frá 13.--24. nóvember nk. Í formála að spurningu minni langar mig að vitna til svars sem hæstv. utanrrh. gaf þeirri sem hér talar á síðasta vetri þegar spurt var um skilyrði íslenskra stjórnvalda fyrir væntanlegri aðild Íslands að Kyoto-bókuninni og hvenær þess væri að vænta að endanleg afstaða yrði tekin til hins svokallaða íslenska ákvæðis sem stjórnvöld hafa unnið að að fá viðurkennt á vettvangi samningsins.

Hæstv. utanrrh. sagði í svari sínu á síðasta vetri að endanlegrar afstöðu til hins svokallaða íslenska ákvæðis væri að vænta á 6. aðildarríkjaþingi samningsins sem nú er rétt handan við hornið. Til að rifja upp efnisinnihald ákvæðisins, þá er það svo að íslensk stjórnvöld hafa frá upphafi haft áhyggjur af því að takmörkun losunar bitni m.a. á stefnu þeirra í stóriðjumálum og hafa frá því 1997 eða jafnvel lengur unnið að því að fá viðurkennda svokallaða sérstöðu Íslands felur í sér ósk um auknar losunarheimildir umfram það sem Íslandi er heimilað samkvæmt Kyoto-bókuninni.

Hugmyndir eða tillögur íslenskra stjórnvalda um umframheimildir hafa ekki legið á lausu en þó er ljóst að farið hefur verið fram á undanþágur fyrir losun stóriðju sem leiði til meira en 5% aukningar í heildarlosun einstaks ríkis. Því verði haldið utan við losunarmörk Kyoto-bókunarinnar með tilteknum og ákveðnum skilyrðum. Þessi skilyrði eru síðan:

Í fyrsta lagi að heildarlosun viðkomandi ríkis sé ekki meiri en 0,05% af heildarlosun allra ríkja sem skráð eru í Viðauka I við samninginn miðað við losun þeirra árið 1990.

Í öðru lagi að endurnýtanlegir orkugjafar séu notaðir til framleiðslu þeirrar orku sem notuð er í iðnverinu.

Í þriðja lagi að notast sé við bestu umhverfisvenjur við framleiðsluna.

Á mannamáli hefur þetta, herra forseti, verið þýtt á þann veg að íslensk stjórnvöld fari fram á allt að 65% aukningu á losun gróðurhúsalofttegunda umfram þau 10% sem bókunin heimilar.

Það er reyndar á reiki hvort krafa íslenskra stjórnvalda hefur ætíð verið sú sama. Mínar heimildir segja að upphaflega hafi ósk stjórnvalda einungis verið 20% losunarheimildir umfram bókunina en líklegt er að nú þurfi enn að hækka beiðnina ef í það stefnir að auk mögulegrar álframleiðslu á Reyðarfirði verði heimiluð stækkun Norðuráls í 300 þús. tonna framleiðslugetu einhvern tíma á næstunni.

En spurning mín til hæstv. ráðherra er sem sagt þessi:

,,1. Hver verður tillaga íslensku sendinefndarinnar á 6. þingi aðildarríkja rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (COP6) sem haldið verður í Haag í nóvember? Hefur tillaga að hinu svokallaða ,,íslenska ákvæði`` breyst frá því að hún var lögð fram á 5. þinginu?

2. Hyggjast íslensk stjórnvöld taka boði hollensku ríkisstjórnarinnar, sem boðar til sérstakrar ráðstefnu ungs fólks í tengslum við aðildarríkjaþingið, og senda fólk á aldrinum 12--18 ára til Haag?``