Þátttaka Íslendinga í þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:43:26 (1108)

2000-11-01 15:43:26# 126. lþ. 18.11 fundur 34. mál: #A þátttaka Íslendinga í þingi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Hér hefur hæstv. umhvrh. svarað fyrirspurn hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur vegna Kyoto-samningsins. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að fátt af því sem ráðherra sagði kom mér á óvart. Hún staðfesti enn og aftur að þó stefnan sé í orði kveðnu að gerast aðili að Kyoto-bókuninni, það er stefna íslenskra stjórnvalda ef viðunandi niðurstaða fæst, þá virðast íslensk stjórnvöld ekki ætla að taka þau skref sem taka þarf til þess að Ísland geti orðið aðili að Kyoto-samningnum. Það er umhugsunarvert að einhver ríkasta þjóð heims ætli að ganga á undan með svo slæmu fordæmi sem raun ber vitni. Við vitum öll að Kyoto-samningurinn er bara fyrsta skrefið í átt að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda hér um langa framtíð og að þeim samningi verðum við að eiga aðild þó ekki sé nema af siðferðilegum ástæðum.