Mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 15:56:43 (1113)

2000-11-01 15:56:43# 126. lþ. 18.12 fundur 35. mál: #A mat á umhverfisáhrifum þjóðgarðs á svæðinu norðan Vatnajökuls# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[15:56]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Nú líkar mér lífið. Nú líkar mér tónninn í hæstv. umhvrh. Það gleður mig sannarlega mikið að heyra að þessi mál skuli vera í þessum farvegi. Ég vil líka ítreka það sem ég hef áður sagt að starf rammaátlunarinnar og verkefnastjórnar rammaáætlunarinnar er afar mikilvægt og þar er greinilega verið að halda vel á málum. Þar er öflugt fólk að störfum og mjög lærdómsríkt hefur verið að fylgjast með vinnu þeirra og algjörlega til fyrirmyndar hversu opin sú vinna er og aðgengileg á heimasíðu Landverndar. Mér þykir því afar vænt um að heyra að málið skuli vera komið í þennan farveg, að verkefnisstjórn rammaáætlunar skuli ætla að taka það að sér sem sérverkefni að líta á þetta mál.

Það er auðvitað rétt sem hæstv. ráðherra segir að það er kannski ekki hægt að segja að hið hefðbundna umhverfismatsferli mundi henta í þessu tilfelli. En mig langar þó, og ég get eiginlega ekki látið hjá líða, herra forseti, að vitna til nefndarálits sem hv. umhvn. skilaði frá sér 8. maí sl. þegar verið var að fjalla um og fylgja úr hlaði nýjum lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þar var umhvn. einróma sammála því að það yrði að skoða ólíka nýtingarmöguleika svæða mjög gaumgæfilega þegar um mat væri að ræða. En í athugasemd umhvn. segir um 9. gr., með leyfi herra forseta:

,,Bent var á við umfjöllun um 9. gr., þar sem segir að ávallt skuli gera grein fyrir og bera saman helstu möguleika sem til greina koma við framkvæmd, að rétt væri að gera grein fyrir þeim möguleika að aðhafast ekkert, svokallaðri ,,núll``-lausn. Nefndin lítur svo á að í næstsíðasta málslið 2. mgr. 9. gr. felist sá möguleiki, þ.e. að einn þeirra möguleika sem koma til greina sé að aðhafast ekkert.``

Það er í raun þessi grein í lögunum og þetta álit umhvn. sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur notað sem stuðning í þeirri málaleitan sinni að óska eftir að þessir nýtingarmöguleikar verði skoðaðir ofan í kjölinn.

Ég ítreka þakkir til hæstv. umhvrh. fyrir svarið.