Átak gegn fíkniefnaneyslu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 17:59:18 (1130)

2000-11-01 17:59:18# 126. lþ. 18.4 fundur 38. mál: #A átak gegn fíkniefnaneyslu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[17:59]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Við hv. þm. Hjálmar Árnason vil ég segja: Ég efast um að ég fylgist nokkuð lakar en hann með því hvernig viðhorf almennings og sveitarfélaga og annarra aðila í þessu landi hafa mótast í þessum efnum. Ég hygg að segja megi, að öðrum sveitarfélögum ólöstuðum, þá hafi Akureyri, höfuðstaður í mínu kjördæmi, tekið hvað myndarlegast á forvarnamálum á undanförnum árum. Þar hefur náðst mikill árangur eins og viðurkennt er og bænum m.a. verið hrósað sérstaklega af ýmsum yfirvöldum þessara mála.

Ég vil einmitt þjóðarsamstöðu um baráttuna gegn þessari vá. Ég tel að þverpólitísk samstaða sé mjög mikilvæg. Þess vegna vara ég við því að einhver einn stjórnmálaflokkur reyni að slá eign sinni á árangurinn og láti sem hann einn skari fram úr hvað það varðar að hafa einhverja meðvitund í þessum efnum. Ég skal glaður taka það hlutskipti á mig að halda fram þessu sjónarmiði þó ég verði var við það hér í salnum að framsóknarmenn gerast mjög órólegir þegar þetta er sagt.

[18:00]

Það er mín meining að við eigum að reyna að varðveita þverpólitíska samstöðu um aðgerðir gagnvart samfélagslegum stórvandamálum af þessu tagi og fara gætilega í þeim efnum að gera út á þau í kosningabaráttu.

Höfum við náð árangri? Jú, það hefur náðst meira af fíkniefnum. En það vita líka allir sem til þekkja að bak við þá mynd getur verið sú óhuggulega staðreynd að miklu meira sé að berast til landsins. Oft er notuð sú þumalputtaregla að kannski tíundi hluti af því sem flutt er inn náist, og ef mun meira er flutt inn er líklegra að meira náist. Með þessu geri ég síður en svo lítið úr baráttu tollgæslu- og lögregluyfirvalda. Hún er mjög mikilvæg. En það eru margir sem óttast að við séum pínulítið að plata okkur í þessum efnum og nota sem mælikvarða á það þá staðreynd að verð á fíkniefnum á markaði hefur ekki hækkað þrátt fyrir að meira náist. Hvers vegna? Er það ekki væntanlega vegna þess að framboðinu er fullnægt?

Ég fagna hverri krónu sem bætist við í baráttuna gegn þessu. En ég geld varhug við því að taka þessa samlagningu hæstv. heilbrrh. á öllu sem bætt hefur verið við til allra forvarnastarfa og allrar tollgæslu- og löggæslu í landinu sem eyrnamerktar efndir á kosningaloforðum Framsfl. Fallast t.d. ráðherrar Sjálfstfl. á það að um sé að ræða eyrnamerkingu á kosningaloforði framsóknarmanna?