Rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:07:59 (1158)

2000-11-01 19:07:59# 126. lþ. 18.16 fundur 62. mál: #A rannsókn á stöðu kynjanna í skólakerfinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:07]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er dálítill munur á orðalagi fsp. annars vegar og þál. sem samþykkt var um jafnréttið hins vegar. Eins og texti ályktunarinnar hljóðar þá á fyrst að kanna og rannsaka stöðu kynjanna í skólakerfinu og síðan, á grundvelli slíkra athugana, að kanna hvort tímabundin aðgreining kynjanna í námi í ákveðnum greinum eða þáttum tryggi betri námsárangur og líðan bæði stúlkna og drengja.

Þegar þessari fsp. er svarað er óhjákvæmilegt að láta þess getið á vegum menntmrn. og aðila sem það hefur stutt hafa farið fram margar og miklar rannsóknir á stöðu kynjanna og á líðan kynjanna í skólum. Þessum rannsóknum lýkur í raun aldrei því þær eru liður í að fylgja eftir góðri skólastefnu, að meta og rannsaka bæði stöðu kynja og einnig nemenda frá öðrum sjónarhóli til að átta sig á því hvaða úrræði eru best.

Menntmrn. lagði jafnréttissjónarmið að grunni þegar unnið var að gerð nýrra aðalnámskráa. Ég hef einnig skipað nefndir sem hafa fjallað um jafnréttismál. Það hefur verið fjallað sérstaklega um tillögur um stefnumörkun í jafnréttisfræðslu og við höfum t.d. gefið út bæklinginn Jafnrétti til menntunar. Við höfum efnt til málþings og rannsókna sem hafa leitt til málþings um stráka í skólum og útgáfu á áðurnefndum bæklingi. Í september 1998 skipaði ég nefnd sem hefur það hlutverk að gera tillögur um hvaða uppeldis- og kennsluaðferðum skuli beitt í grunnskólum til að mæta betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna. Þessi nefnd var skipuð í framhaldi af þál. sem Alþingi samþykkti 4. júní 1998 þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd fagfólks í uppeldis- og kennslumálum sem geri tillögur um hvaða uppeldis- og kennsluaðferðum skuli beitt í grunnskólum til að mæta betur mismunandi þörfum drengja og stúlkna, en upplýsingar um misvægi í sérfræðiþjónustu, athygli kennara og námsárangri benda til að úrbóta sé þörf. Jafnframt geri nefndin tillögur um viðeigandi breytingar á kennaranámi.``

Þessi nefnd er að störfum og fjallar m.a. um efni sem snertir þá ályktun sem vísað er til í fsp. Ég vil einnig láta þess getið að fram hafa farið rannsóknir undir heitinu Ungt fólk '97 á vegum Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála. Sú rannsókn gefur vísbendingar um umtalsverðan kynjamun í grunnskólum, bæði hvað varðar árangur og líðan. Í þeirri rannsókn kom m.a. fram að hlutfallslega fleiri piltum en stúlkum líður illa í skólanum og þeir eru frekar haldnir námsleiða, vilja í fleiri tilvikum hætta í skóla og telja að sér semji illa við kennara. Sama rannsókn leiddi í ljós að sjálfsmat stúlkna er lægra en pilta þrátt fyrir almennt betri námsárangur þeirra.

Einnig höfum við aðrar rannsóknir að styðjast við þegar við könnum þessa stöðu. Ég nefni þar t.d. rannsókn á einelti í skólum sem Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála annaðist á vegum menntmrn. Það er verið að vinna úr þeirri rannsókn, hún hefur verið kynnt og menn telja að þar sé bent á ýmis úrræði sem m.a. snerta það mál sem við erum að ræða.

Einmitt þessa dagana er í gangi sérstök rannsókn þar sem verið er að kanna hagi og líðan ungs fólks í framhaldsskólum og er menntmrn. meðal þeirra sem standa að rannsókninni og veita styrk til hennar. Slík rannsókn hefur ekki verið gerð áður meðal þessa aldurshóps og í rannsókninni gefst tækifæri til að kanna m.a. hver sé munur á líðan og árangri pilta og stúlkna í framhaldsskólum.

Hv. fyrirspyrjandi nefndi tilraun sem gerð var í Gagnfræðaskóla Akureyrar á árinu 1990. Þar var beinlínis farið út í tilraun sem byggðist á að greina á milli kynja. Sú tilraun þótti ekki gefa tilefni til þess að halda áfram á þeirri braut. Það er rétt sem hv. þm. segir, að þetta hefur líka verið tilraunastarf í leikskóla í Hafnarfirði. Með því hefur verið fylgst en það hefur ekkert komið fram, hvorki hér né, held ég, erlendis --- að sjálfsögðu væri ástæða til að kanna það líka sérstaklega --- sem bendir til að skynsamlegt sé að hafa þessi markmið í sjálfu sér, að greina á milli kynjanna. Það er hins vegar rannsókn, ef út í það væri farið, sem tæki mörg ár og yrði mjög viðamikil, ef menn ætluðu að fá einhvern skóla til þess að fara út í slíkt tilraunastarf. Það þarf að sjálfsögðu að koma til álita.