Bygging menningarhúsa

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 19:31:32 (1167)

2000-11-01 19:31:32# 126. lþ. 18.17 fundur 130. mál: #A bygging menningarhúsa# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[19:31]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt að fagna þeim áherslubreytingum sem hafa orðið hjá hæstv. menntmrh. hvað varðar byggingu menningarhúsa. Það vakti sérstaka athygli þegar fram var farið með þessa hugmynd að ákveðnir fimm staðir voru valdir af hinum hæstv. ráðherrum en ekki af íbúunum sjálfum og eins var það með fyrirkomulagið að það átti eingöngu að reisa menningarhús.

Nú virðist sem hæstv. ráðherra hafi gjörsamlega breytt um áherslur og því ber auðvitað að fagna. Einnig vil ég taka undir með hæstv. ráðherra að það þarf auðvitað að vanda vel undirbúning að slíku þrekvirki.

Herra forseti. Við fengum í hendur, undir ræðu hv. fyrirspyrjanda, merkt plagg. Þar vil ég, með leyfi forseta, vitna til niðurstöðu, þ.e. þar sem fjallað er um menningarhús í kafla 2.1 sem heitir Menningarhús og önnur aðstaða. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að ákvörðun ríkisstjórnar frá 7. janúar 1999 um menningarhús verði útfærð með samningum við sveitarfélög á grundvelli mótaðra tillagna þeirra um þessa uppbyggingu.``

Það ber sérstaklega að fagna því að sveitarfélögin fá að koma þarna að.