Flutningur Landskrár fasteigna til Akureyrar

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 20:09:14 (1185)

2000-11-01 20:09:14# 126. lþ. 18.20 fundur 131. mál: #A flutningur Landskrár fasteigna til Akureyrar# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 18. fundur, 126. lþ.

[20:09]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa oft staðið um það deilur, stundum mjög hatrammar, hvort flytja beri starfsemi á vegum hins opinbera frá Reykjavík út á landsbyggðina. Oft hefur mjög óhöndulega tekist til í þessu efni og nægir þar að nefna deilurnar í kringum flutning á Landmælingum ríkisins frá Reykjavík til Akraness á sínum tíma og nú síðast flutning Byggðastofnunar.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur mjög eindregið verið á því að stefna beri að því að styrkja opinbera starfsemi utan Reykjavíkursvæðisins, á landsbyggðinni. Hér er dæmi um stofnun eða hluta af stofnun, starfsemi sem er að verða til, sem mikilvægt er að fundinn verði staður utan Reykjavíkursvæðisins, í þessu tilviki á Akureyri. Mér heyrðist á svari hæstv. fjmrh. að staðið verði við þau fyrirheit sem gefin hafa verið og mér finnst það vera fagnaðarefni.