Skráning skipa

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 11:30:02 (1210)

2000-11-02 11:30:02# 126. lþ. 19.1 fundur 118. mál: #A skráning skipa# (kaupskip) frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[11:30]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það eru ekki mörg ár síðan framkvæmdastjóri Sambands ísl. kaupskipaútgerða lýsti því yfir að það sem háði því einna helst að skip væru skráð undir íslenskan fána væru hin svokölluðu stimpilgjöld. Stimpilgjöld væru fyrir meðalkaupskip á bilinu 20--40 millj. á sama tíma og það þyrfti nánast ekkert fyrir því að hafa að skrá erlendar flugvélar sem lentu á Keflavíkurflugvelli sem íslenskar. Og þetta var rétt. Síðan hefur afnám stimpilgjalda af kaupskipum farið fram. Það varð ekki til þess að skip flæddu hér inn undir íslenska skipaskráningu.

Nú halda útgerðarmenn því fram að með þessum breytingum muni verða breyting á. Ekki er langt síðan Eimskipafélag Íslands tók á móti nýju kaupskipi, sem er stærsta skip íslenska flotans, og það er dálítið hjákátlegt og hálfankannalegt að í orði kveðnu er skipið íslenskt en fáni þess og skráningarstaður ekki Ísland, engar hafnir íslenskar. Það er ekki skráð í Reykjavík, en ég vona að þessi breyting verði til þess.

Það er rétt sem hv. síðasti ræðumaður, Steingrímur J. Sigfússon, kom inn á áðan í ræðu sinni að það er náttúrlega ófremdarástand hjá eyþjóð sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi og siglingum að svo skuli komið fyrir henni að aðeins þrjú skip séu undir íslenskum fána, eitt millilandaskip og tvö olíuflutningaskip.

Það sem hins vegar er líka að gerast og er alvarlegt fyrir þjóðina er að í gær kom það fram hjá hæstv. samgrh. sem svar við fyrirspurn minni um hvað margir þyrftu að útskrifast úr Vélskóla og Stýrimannaskóla með vélstjóra- og skipstjórnarmenntun til að viðhalda þeirri þörf í íslenska flotanum, að það þyrftu á bilinu 90--110 manns að útskrifast úr hvorum skóla árlega.

Í Stýrimannaskólanum eru 50 nemendur og í Vélskólanum 140 nemendur. Það er engin aðlögun. Það er ekki neitt sem kallar á ungt fólk og langt frá því að það sé áhugavert fyrir ungt fólk að sækja í menntun sjómannastéttarinnar með m.a. þá staðreynd að fáein skip eru undir íslenskum fána, þ.e. kaupskip. Vonandi fjölgar kaupskipum undir íslenskum fána með þeirri breytingu sem hér er lögð til og ég vænti að verði samþykkt.

Það er rétt, eins og komið var hér inn á áðan, að kaupskipin eru orðin fá sem sinna reglubundnum siglingum til og frá Íslandi með vörur. Það kemur til vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur, að skipin hafa stækkað en jafnframt hefur þeim fækkað og jafnhliða því hefur orðið hagræðing í áhöfn. Þar sem áður voru 24 menn á 1.500 tonna kaupskipi eru núna á 10 þúsund tonna kaupskipi 11 manna áhöfn. Það hefur því orðið geysileg þróun til fækkunar í áhöfn.

Lengi vel hafa íslensku kaupskipaútgerðirnar líka kvartað undan því að þær ættu í erfiðleikum vegna hinnar hörðu erlendu samkeppni sem er varðandi áhafnir frá þriðja heiminum. Þeim hefur verið borgað í laun sem samsvarar um 100 dollurum á mánuði. Íslensk stéttarfélög hafa staðið í harðri baráttu við að passa upp á þau skip sem hafa verið í reglubundnum siglingum til og frá landinu, þ.e. þau erlendu skip með erlendri áhöfn sem hafa verið kannski í eitt, tvö til þrjú ár í leigu hjá íslenskum kaupskipaútgerðum. Stéttarfélögin hafa verið að sporna gegn því að þau skip væru mönnuð fólki frá þriðja heiminum eða jafnvel Rússlandi þar sem það hefur gerst að borgað sé um 100 dollara á mánuði í laun. Sum skip hafa stöðvast í höfnum og málssóknir hafa verið á hendur stéttarfélaganna. Vonandi er þessari baráttu að linna og íslenskar kaupskipaútgerðir átti sig á stöðu sinni.

Ég vil líka aðeins koma inn á það að ekki er langt síðan við áttum hér orðastað við hæstv. utanrrh. vegna sjóflutninga fyrir Bandaríkjaher. Ég lagði til þá breytingu á lögum að sama ákvæði varðaði íslenska þáttinn í þeim flutningum, þ.e. sé tilboð gert fær sá sem býður lægra 60% hlutfall en sá sem býður hærra 40% og skiptist þetta á milli Bandaríkjamanna og Íslendinga. Í bandarísku lögunum segir að sjóflutningar fyrir Bandaríkjaher skuli af Bandaríkjanna hálfu vera með bandarísku skipi undir bandarískum fána. Ég vildi fá þetta ákvæði inn m.a. til þess að efla íslenskan kaupskipaflota eins og stendur í greinargerð Eimskips sem vitnaði til fyrri ríkisstjórnar um að þetta væri grundvallaratriði í þeim samningi sem þá varð gerður, þegar áður eingöngu bandarísk skip fluttu vöruna fyrir Bandaríkjaher. Taldi ég að þetta væri eðlilegt til þess að efla íslenskan flota eins og þeir sögðu. Við erum eyríki í Norður-Atlantshafi og afkoma okkar byggist verulega á fiskveiðum og siglingum og við verðum að efla íslenskan kaupskipaflota þess vegna. Því miður var þessi breyting við lögin felld.

En frammi fyrir hverju standa menn nú? Þeir standa frammi fyrir því í fyrsta lagi að íslenski hluti fragtsjóflutninganna er fluttur með tveimur erlendum skipum með erlendum áhöfnum. Og í annan stað, sem er nokkuð merkilegt, segir í þeim ákvæðum laganna, sem við vorum að fjalla um á Alþingi á vordögum, að það skuli vera íslenskur útgerðaraðili sem annist þessa flutninga. Nú hefur það hins vegar komið í ljós að sá aðili sem stendur að þeim flutningum og segir að það sé íslenskt fyrirtæki með erlend leiguskip sem flytji íslenska hlutann er ekki útgerðarfyrirtæki í skilningi laganna. Það er því mjög sérstök staða komin upp varðandi þetta mál.

Hvað varðar það sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni um tillögu varðandi fiskiskip og B-skráningu fiskiskipa sem hann vitnaði til að hefði verið flutt hér 1994 ef ég tók rétt eftir, þá vara ég alvarlega við því að slík skráning verði til hvað áhrærir íslenska fiskiskipaflotann. Það þýddi einfaldlega að slík fiskiskip væru þá mjög oft að skipta um þjóðfána. Þau væru inni í íslenskri landhelgi í dag undir íslenskum fána en á morgun jafnvel með rússneskan fána og búið að henda íslenskri áhöfn í land og væru um stundarsakir í Barentshafi eða guð má vita hvar. Mér finnst að það sé allt annað mál sem lýtur að fiskiskipunum en kaupskipunum. Fiskiskipin eru í allt öðru umhverfi, en hins vegar eru þau ekki í því umhverfi sem íslenskar kaupskipaútgerðir hafa kvartað undan, að þau væru í harðri samkeppni við erlend skipafélög. Hvaða skipafélög eru það sem sigla reglubundið til og frá Íslandi? Það eru Samskip og Eimskip. Það er ekkert erlent skipafélag í samkeppni við hinar íslensku útgerðir með fraktina til og frá Íslandi. Umhverfi íslenskrar kaupskipaútgerðar er ekki þannig að það sé í samkeppni við erlendar kaupskipaútgerðir. Þess vegna vísa ég því algerlega á bug þegar útgerðir koma og segja að þær þurfi jafnvel að fá einhverjar sérstakar skattívilnanir til þess að geta rekið kaupskip á einhverju alþjóðasvæði sem ekki er siglt á.

Ég endurtek það aftur sem ég sagði áðan, herra forseti, að ég trúi því og er þess fullviss að þetta frv. muni leiða til þess að kaupskipum undir íslenskum fána muni fjölga.