Fjarskipti

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 16:25:48 (1277)

2000-11-02 16:25:48# 126. lþ. 19.6 fundur 159. mál: #A fjarskipti# (hljóðritun símtala) frv., Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á fjarskiptalögum, nr. 107 frá 28. des. 1999. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Kristján L. Möller og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til eiga sér þó nokkurn aðdraganda. Þegar frv. til laga um fjarskipti, sem síðan varð að lögum nr. 107/1999, var samþykkt á sínum tíma þá var inni í því frv. ákvæði þess efnis að lagt var bann við því að hljóðrita samtal. Við sem sátum þá í minni hluta samgn. gerðum athugasemdir við þessa niðurstöðu og skiluðum í tengslum við það minnihlutaáliti.

Síðan gerðist það í fyrra að meiri hluti samgn. ætlaði að keyra í gegn breytingu á þessu ákvæði með því að fella það alfarið niður. Á sama hátt og okkur fannst of langt gengið áður of langt gengið í hina áttina þegar svo var komið. Það varð að lokum til þess að hæstv. ríkisstjórn ákvað, eftir að málið hafði farið í gegnum tvær umræður, að hætta við þessa breytingu.

Því leggjum við flm. fram eftirfarandi frv. Við leggjum til í 1. gr. breytingu á 3. mgr. 44. gr. laga um fjarskipti. Greinin orðast svo, með leyfi forseta:

,,3. mgr. 44. gr. laganna orðast svo:

Sá aðili símtals, sem vill hljóðrita samtalið, skal í upphafi þess tilkynna viðmælanda sínum um þá fyrirætlan sína. Slíkt á þó ekki við um:

a. Hljóðritun í þágu lögmætra viðskiptahagsmuna, til sönnunar á inntaki samningssambands, eða ef ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt eða megi vera kunnugt um hljóðritunina, eins og t.d. vegna fréttaöflunar fjölmiðla.

b. Hljóðritun af hálfu stjórnvalds, enda sé hún eðlilegur þáttur í starfsemi þess og nauðsynleg vegna almannahagsmuna eða allsherjarreglu og ótvírætt megi ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina.

c. Hljóðritun sem er einstaklingi nauðsynleg til að verjast meiðandi hótunum eða áreiti, svo sem af kynferðislegum toga.``

Eins og ég sagði í upphafi voru heildarlög um fjarskipti samþykkt rétt fyrir sl. áramót. Í þeim lögum var að finna ákvæði sem kvað á um skilyrðislaust bann við upptöku samtals. Eftir frekari skoðun virðist ljóst að löggjafinn gekk of langt í lagasetningu sinni með því að setja skýlaust bann við upptöku, þegar mið er tekið af 5. gr. tilskipunar Evrópusambandsins, nr. 97/66/EB frá 15. desember 1997, um úrvinnslu persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífsins á sviði fjarskipta, sem er fyrirmynd 3. mgr. 44. gr. núgildandi fjarskiptalaga.

Meginreglan í tilskipun nr. 97/66, sem fjallar um persónuvernd á sviði fjarskipta, er tvímælalaust sú að óheimilt sé að hljóðrita símtal nema hinn aðili samtals samþykki upptökuna.

Tillagan sem hér er lögð fram felur í sér að meginreglan verði bann við upptöku samtala án vitundar viðmælanda, en eðlilegar undanþágur verði heimilaðar sem er sú leið sem önnur lönd á Evrópska efnahagssvæðinu hafa farið. Í ákveðnum tilvikum er þá heimilt að taka upp samtöl. Þau sjónarmið sem liggja að baki undanþágunni eru einkum nauðsyn samfélagsins á því að halda uppi allsherjarreglu og tryggja sönnun. Þá er enn fremur hnykkt á mikilvægi hlutverks fjölmiðla við að tryggja aðhald og upplýsingaöflun og gengið út frá því að viðmælendum fjölmiðlamanna megi vera ljóst að líkur standa til þess að samtalið sé tekið upp.

[16:30]

Virðulegi forseti. Ástæða þess að við leggjum til að þessi leið sé farin er fyrst og fremst sú að við lítum svo á að meginreglan um það að gagnaðili viti af því að samtal sé tekið upp sé virt og sé við lýði. Það er meginreglan sem ætlað er að tryggja friðhelgi einkalífs en það breytir ekki því að nauðsynlegt er að hafa á þessu undanþágur.

Í 71. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið skýrt á um það að ekki megi nema með dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild nota samtal eða rannsókn á samtali en þar segir, með leyfi forseta:

,,Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.``

Virðulegi forseti. Af þessari reglu verður vart annað ráðið en þegar veita á undantekningar frá friðhelgi einkalífs, þ.e. nota hugsanlega símtöl í rannsókn, þá verði í þeim tilvikum að vera um skýrar lagaheimildir að ræða. Því leggjum við hv. þm. fram það frv. sem hér liggur fyrir til þess í fyrsta lagi að tryggja að núverandi reglur skerði ekki möguleika manna á því sem ég talaði áðan um, þ.e. að tryggja að geta varist meiðandi hótunum, að núgildandi regla hindri ekki stjórnvöld í störfum sínum og í þriðja lagi að hún komi ekki í veg fyrir að menn geti notað samtöl til sönnunar á inntaki samningssambands.

Virðulegi forseti. Við leggjum til að það frv. sem ég hef mælt fyrir fari að lokinni umræðunni til hv. samgn.