Heilsuvernd í framhaldsskólum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 17:10:02 (1287)

2000-11-02 17:10:02# 126. lþ. 19.7 fundur 91. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir till. til þál. um heilsuvernd í framhaldsskólum borin fram af Ástu Möller og fleiri þingmönnum og hefur þegar verið kynnt hérna. Þessi tillaga fjallar um að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera tillögur um hvernig skipulagðri heilsuvernd fyrir ungt fólk verði háttað.

Ég vil byrja á því að þakka þessa tillögu. Hún er mjög þörf og fólk hefði mátt taka fyrr við sér í þessum málum því að þörfin er mikil.

Við sem höfum starfað að skólamálum þekkjum það, og ég tala nú ekki um að flest höfum við líka verið foreldrar, að árin frá 16 ára til tvítugs eru kannski viðkvæmasti tíminn í mótunarskeiði ungs fólks. Það er einmitt á þessum árum sem ýmislegt dynur yfir sem oft er óafturkallanlegt og verður til að hafa úrslitaáhrif á það hvernig lífi fólks vindur fram.

Á þessum árum t.d. byrjar fólk að stunda kynlíf og það stundar oft ekki kannski nákvæmlega það kynlíf sem er fyrirskrifað af foreldrum og umsjónarmönnum og er stundum ekki mjög ráðþægið, en það gerir það samt. Það getur haft afdrifaríkar afleiðingar. Það er líka á þessum aldri sem ungt fólk byrjar að neyta áfengis og tóbaks og á það hefur verið bent að það sé á þessum aldri sem algengast er að fólk þjáist af átröskun, þ.e. ýmist lotugræðgi eða þá að það sveltir sig. Svo er náttúrlega þetta vandamál sem hefur yfir okkur dunið í auknum mæli á undanförnum árum svo að sumir vilja jafna við faraldur og það eru sjálfsvíg ungs fólks sem eru mikið vandamál hér á landi og við því miður eigum ekki skýr svör við.

Eins og fram kemur í þessari tillögu viljum við gjarnan líta svo á að ungt fólk á þessum aldri sé heilbrigt og því ekki sérstök ástæða til að hafa áhyggjur af heilsufari þess. En annað hefur komið á daginn. Fyrir þessu öllu saman er mjög vel gerð grein í tillögunni. Vandinn er mikill vegna þess hvernig þessum málum er fyrir komið hér í lögum, þ.e. heilsugæslustöðvum er ætlað að sjá um þetta á einhvern hátt. Samt er það ekki skýrt þannig að fæstar hafa þær getað sinnt svo nokkru nemi skipulagðri heilsugæslu innan skólanna þó að um það séu vissulega dæmi. Það hefur verið betra skipulag á þessum málum innan grunnskólanna og að mínum dómi var það þó enn þá betra áður fyrr þegar við vorum með sérstakar skólahjúkrunarkonur í skólunum og sérstaka skólalækna sem stunduðu skipulagðar rannsóknir eftir ákveðnu kerfi. En samt er það enn svo að mun betra form er á þessu hjá grunnskólabörnum.

Það hefur verið tiltekið hérna að heilsugæslan á Egilsstöðum hafi sinnt þessu sérstaklega og að það hafi skipt sköpum varðandi námsframvindu barna sem áttu í erfiðleikum hvernig heilsugæslan hafi gripið inn í og mér þykir þetta mjög trúlegt. Einnig hefur verið á það bent að hjúkrunarfræðingar við Ármúlaskóla hafi haft reglulega viðtalstíma sem hafa verið mikið nýttir. Auðvitað þurfum við ekki eingöngu að hafa áhyggjur af ungmennum í framhaldsskólum vegna þess að stór hlutinn, og kannski sá sem er í mestri hættu, fer ekki í framhaldsskóla eða fellur þar fljótlega brott. Samt sem áður stundar stærstur hluti þessa aldurshóps nám í framhaldsskólum.

[17:15]

Það kom í ljós í Ármúlaskólanum að nemendur sem komu í viðtöl til hjúkrunarkvenna komu flestir vegna kvíða og þunglyndis sem hefur farið mjög vaxandi að mínum dómi meðal ungmenna og kannski allra á undanförnum árum. Ástæða er til að ætla að stór hluti þeirra 33% sem hér er bent á að falli úr framhaldsskóla, ég held að það sé kannski aðeins meira samkvæmt þeim tölum sem ég hef alla vega skoðað, falli brott úr námi vegna kvíða og þunglyndis. Oft hefur verið talað um að það væri þá ágætt að þetta fólk færi bara að vinna. Sumir hafa orðað það þannig að best væri að það færi bara í fisk en ég held að það í sjálfu sér hafi ekki bætandi áhrif á líðan þessa hóps og verði t.d. oft til þess að þegar það án þess að nokkuð sé að gert fer að vinna og hefur peninga þá verði það til þess að neysla á áfengi og tóbaki frekar aukist heldur en hitt.

Ég held að það skipti mjög miklu máli að koma upp heilsugæslu innan skólans þannig að þar sé sérstök miðstöð sem unglingar geti komið til viðtals. Ég held að það skipti ekki síst máli hvað snertir ráðleggingar varðandi kynlíf, bæði fyrirbyggjandi ráðleggingar og eins ráðleggingar til þeirra sem eru búnir að koma sér í eitthvert klandur.

Ég vona að þessi góða þáltill., sem er mjög vel úr garði gerð og ég vil hrósa greinargerðinni alveg sérstaklega, fái góða þinglega meðferð og verði samþykkt.