Heilsuvernd í framhaldsskólum

Fimmtudaginn 02. nóvember 2000, kl. 17:32:34 (1290)

2000-11-02 17:32:34# 126. lþ. 19.7 fundur 91. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 126. lþ.

[17:32]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað um afskaplega brýnt og mikið mál. Ég þakka 1. flm., hv. þm. Ástu Möller, fyrir vandaðan málflutning í þessu mikilvæga máli.

Ég minnist þess, herra forseti, að í tíð minni sem skólameistari þá komu vitanlega upp mörg mál í stórum skóla, framhaldsskóla með á milli sjö og átta hundruð nemendum. Eins og nærri má geta þá komu upp hin ólíklegustu vandamál hjá ungu fólki sem er á mjög viðkvæmu skeiði, er að ganga inn í fullorðinsárin ef svo má að orði kveða. Þar voru margir að stíga sín fyrstu skref inn í nýjan heim. Á þessum aldri er algengt að unglingar kynnist áfengi, fíkniefnum, kynlífi og þannig má áfram telja. Auk þess er líkamsvöxtur, tilfinningaþroski og annað í mjög miklu uppnámi ef svo má segja.

Þess vegna má líka segja að það skjóti afskaplega skökku við að skipulag heilbrigðismála okkar undanfarna áratugi skuli ekki hafa náð með markvissum hætti inn í framhaldsskólana. Við verðum að líta til þess að til allar hamingju hefur það aukist verulega á síðustu áratugum að ungmenni hafa haldið áfram námi að loknum grunnskóla. Um eða yfir 90% ungmenna í dag hefja a.m.k. nám í framhaldsskóla að loknum grunnskóla og á þessu mikilvæga og viðkvæma mótunarskeiði í lífi einstaklingsins, hlýtur þess vegna að vera eðlilegt og brýnt að halda uppi markvissri heilsuvernd í framhaldsskólum.

Í tíð minni sem skólameistari reyndi ég að leita eftir samstarfi um þetta, ritaði læknum skólahverfisins, heilsugæslulæknum, héraðslæknum, landlækni og til heilbrigðisyfirvalda, en það var eins og að vaða um í þoku og blindni því hver benti á annan. Að sumu leyti var þetta spurningin um hver ætti að fjármagna markvissa heilsuvernd í framhaldsskólum en niðurstaðan var augljós. Þarna var algjört skipulagsleysi og skortur á stefnumörkun. Ég fagna því þessari þáltill. enda einn af meðflutningsmönnum hennar og hlýt þess vegna að styðja hana heilshugar. Ég tel að hér sé um mjög þarft verk að ræða.

Í umræðunni hafa verið rakin mjög nákvæmlega og vel rök fyrir því hvers vegna þáltill. eða stefnumörkun fyrir heilsuvernd í framhaldsskólum er mikilvæg. Ég vil aðeins leyfa mér að bæta einum þætti við þá umræðu um leið og ég tek undir allt sem hér hefur verið sagt. Við þurfum að hafa það í huga að í framhaldsskólum eru ólíkar námsbrautir. Þó að starfsmenntabrautir mættu vissulega vera fleiri þá eru þær nú samt töluvert margar í framhaldsskólum. Þar eru margir nemendur að læra fyrir framtíðarstarf sitt. Þar á ég sérstaklega við svokallað verknám eða starfsþjálfun, þar sem nemendur kynnast því að handleika ýmis verkfæri og tileinka sér vinnustöðu við þau tæki og tól sem nemendurnir eiga síðan eftir að vinna með, jafnvel ævilangt.

Þetta gildir ekki bara um hinar hefðbundnu gömlu iðngreinabrautir, tréiðnaðarbraut, málmiðnaðarbraut, vélstjórnarbraut. Ekki síður á það við um tölvunám sem er að verða mjög ríkur þáttur í námi og daglegu lífi allra. Þess vegna hef ég --- reyndi það á sínum tíma í starfi mínu sem skólameistari, án árangurs þó --- viðrað þá hugmynd að við hvern framhaldsskóla ætti í raun að vera sjúkraþjálfari, hjúkrunarfræðingur eða einhver með sérmenntun, til að kenna fólki réttar vinnustellingar.

Við erum ekki bara að ræða um forvarnir gegn fíkniefnum, reykingum og öðru slíku. Við erum ekki bara að ræða um það að nemendur læri af bókinni eða læri að kveikja og slökkva á tækjum, heldur er jafnmikilvægt og ekki síður mikilvægt, að nemendur læri réttar vinnustellingar.

Ég er sannfærður um að þó að einhver kostnaður hljótist af því að ráða, þó ekki væri nema hálft stöðugildi við venjulegan framhaldsskóla, sjúkraþjálfa eða einhvern slíkan gagngert til að sinna þessum þætti þá væri það langtímasparnaður fyrir þjóðfélagið. Þó ekki væri nema einum einstaklingi forðað frá hryggskekkju eða slæmri vöðvabólgu með viðeigandi afleiðingum þá mundi kostnaðurinn skila sér til þjóðfélagsins til lengri tíma litið, fyrir utan það að komist yrði hjá hinum mannlega harmleik.

Ég ætla ekki, herra forseti, að orðlengja frekar um þetta. Ég fagna þessari þáltill. og ítreka þakklæti mitt til hv. þm. Ástu Möller fyrir hennar frumkvæði og framlag. Ég og vonast til að þessi þáltill. fái farsæla afgreiðslu hér í meðförum þingsins en ég vildi aðeins bæta þessum lokaþætti við, um líkamsbeitingu í forvörnum og heilsuvernd framhaldsskóla.