Þingvallabærinn

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 13:45:06 (1423)

2000-11-08 13:45:06# 126. lþ. 21.1 fundur 169. mál: #A Þingvallabærinn# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[13:45]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég nefndi í ræðu minni að ég vildi að ríkisstjórnin hefði frekari afnot af byggingunni. Ég nefndi það í svari mínu. Ég get sagt það sem reynslu mína að þetta er kallaður sumarbústaður forsrh. en það er þannig að forsrh., hver sem hann er, a.m.k. sá sem hér talar, nýtir húsið ekki mikið að sumri til. Það er sjálfsagt hugsað til þess eins og í öðrum löndum að forsrh. hafi þess háttar hús til hvíldar og uppbyggingar en sumarið er ekki mjög vel til þess fallið á þessum stað. Allt fram til slyssins 1970 var sumarbústaður forsrh. annars staðar, ekki við kirkjuna, og þar var girt af og þess háttar. Það er ekki hægt þarna. Það er afskaplega erfitt fyrir hvaða forsrh. sem er að vera þarna til sumardvalar. Það er miklu betra að menn séu í eigin kofum einhvers staðar annars staðar en þarna.

Hins vegar nýtist húsið vel til þess að taka á móti gestum því að Þingvellir eru afskaplega fagrir heim að sækja eins og allir þekkja og það er ágæt starfsemi. Ég hef fyrir mitt leyti notað húsið meira sem vetrarbústað eða kannski á vordögum og haustdögum. Þá er meiri friður í kringum það. Ég er ekkert að finna að þessu. Þarna er kirkjan og þarna er opið svæði þannig að það hefur kannski ekki verið mjög vel hugsað í byrjun að tengja þetta saman. Í þessu sambandi hef ég og Þingvallanefnd aðallega viljað kanna möguleika á því að nýta húsið betur fyrir starfsemi ríkisstjórnarinnar og móttökur og þess háttar. Það verður að segja það alveg eins og er að Valhöll á Þingvöllum hefur hreint ekki dugað á síðustu árum eða verið til þess fallin að hægt sé að nýta hana til starfsemi af því tagi.