Félög og fyrirtæki sem skráð eru á Verðbréfaþingi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:00:24 (1430)

2000-11-08 14:00:24# 126. lþ. 21.4 fundur 141. mál: #A félög og fyrirtæki sem skráð eru á Verðbréfaþingi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi SighB
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Í umræðum sem urðu hér á dögunum um frv. nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar, um að heimila erlendar fjárfestingar í vinnslufyrirtækjum í sjávarútvegi, bar á góma þá fyrirætlun sem nú er orðin að veruleika, að Verðbréfaþing Íslands hæfi útrás til að hvetja erlenda fjárfesta til að fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum á Verðbréfaþingi. Þá kom upp sú spurning: Hvernig virkar það? Hversu mörg fyrirtæki eru skráð á Verðbréfaþingi Íslands og hversu mörg fyrirtæki af þeim sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands eru lokuð fyrir útlendingum?

Til þess að fá þessar upplýsingar varpaði ég fram svofelldri fyrirspurn til hæstv. viðskrh.:

,,1. Hvaða félög og fyrirtæki hafa hlotið skráningu á Verðbréfaþingi Íslands?

2. Í hverjum þeirra er erlendum aðilum ekki heimilt að fjárfesta?``

Ég veit, virðulegi forseti, að takmarkaður tími gefst til þess að svara fsp. minni og e.t.v. hefði verið ákjósanlegra að biðja um skriflegt svar en engu að síður vona ég að hæstv. ráðherra geti svarað þessum tveimur spurningum hér í mæltu máli þannig að fullnægjandi megi teljast.