Landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:15:49 (1436)

2000-11-08 14:15:49# 126. lþ. 21.5 fundur 145. mál: #A landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., BH
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:15]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég held að rétt sé að draga fram það sem hv. fyrirspyrjandi vakti athygli á í ræðu sinni að á höfuðborgarsvæðinu búa 60% útlendinga. Með fullri virðingu fyrir því verkefni sem ríkisstjórnin hyggst leggja áherslu á með miðstöðinni á Vestfjörðum spyr maður að því hvort ríkisstjórnin hyggist þá vísa þessum 60% allra útlendinga annaðhvort til Vestfjarða til að leita eftir þeirri þjónustu sem þeir þurfa á að halda eða hvort þeir hyggist vísa þeim á borgina. Er ekki eðlilegt að byggja upp a.m.k. grundvallarþjónustu þar sem þörfin er fyrir hendi, herra forseti? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að þessu. Mér finnst það í raun og veru mjög merkileg afstaða að vilja líta fram hjá því að hafa þjónustuna þar sem þörfin er. Með fullri virðingu fyrir landsbyggðinni og því mikilvæga verkefni að reyna að halda henni í byggð held ég að við verðum að horfa til þess að þarna er verið að tala um þjónustumiðstöð fyrir tiltekinn hóp fólks sem býr að miklum meiri hluta á höfuðborgarsvæðinu.