Landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:18:20 (1438)

2000-11-08 14:18:20# 126. lþ. 21.5 fundur 145. mál: #A landsmiðstöð fyrir útlendinga búsetta á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:18]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þáltill. sem samþykkt var hér á vorþingi var flutt af öllum þingmönnum Vestfirðinga að gefnu tilefni og brýnni þörf. Hún var flutt öðru sinni og hlaut hér brautargengi og félmrh. vinnur að framgangi þeirrar ályktunar sem samþykkt var.

Mér finnst mjög einkennilegt að þegar svo kemur að því að efna eigi ályktunina rísi upp þingmenn af höfuðborgarsvæðinu og agnúist út í málið og finni því sitthvað til foráttu. Það er eins og ekki megi gera nokkurn skapaðan hlut á landsbyggðinni öðruvísi en að þá rísi menn upp á höfuðborgarsvæðinu og hafi það helst sem markmið að koma í veg fyrir að eitthvað verði af þeim framkvæmdum sem Alþingi hefur ályktað um. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að það eru líka útlendingar á höfuðborgarsvæðinu og menn geta velt fyrir sér hvernig eigi að grípa á því máli en ekki að tengja það saman við það sem þegar hefur verið samþykkt og reyna að spilla fyrir því.