Málefni innflytjenda

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:27:48 (1443)

2000-11-08 14:27:48# 126. lþ. 21.6 fundur 210. mál: #A málefni innflytjenda# (fsp. til félmrh.) fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. fyrirspyrjenda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni. Málefni útlendinga varða mörg svið þjóðfélagsins en þau falla undir verksvið margra ráðuneyta og það eru þó einkum félmrn., dómsmrn., heilbr.- og trmrn. og menntmrn.

Ég held að mjög mikilvægt sé að öll stjórnsýsluframkvæmd ríkisins í málefnum útlendinga sé skýr. Því þykir mér afar brýnt að kanna möguleika á því að málaflokkurinn verði undir yfirstjórn eins ráðuneytis og rökin fyrir því eru einkum þau að með því náist betri heildaryfirsýn yfir málaflokkinn og samræming í aðgerðum verði einfaldari og árangursríkari.

Útlendingum hefur fjölgað mjög undanfarin ár og ekkert bendir til þess að svo verði ekki á næstu árum. Við höfum kannað það í ráðuneytinu hvað hafi orðið um það fólk sem fékk hér atvinnuleyfi fyrir fjórum árum og í ljós kemur að 40% af því er hér enn. Það segir okkur það að þetta fólk ætlar að setjast hér að og okkur ber skylda til að sinna því.

Þegar litið er til þeirrar þróunar hvernig samsetning útlendinga hérlendis er með tilliti til aldurs og kynferðis má búast við að umfang mála að því er varðar útlendinga hér á landi aukist enn að mun. Í ljósi þessa hef ég skipað nefnd sem falið hefur verið að kanna aðstæður erlends vinnuafls og útlendinga með dvalarleyfi hér á landi. Nefndinni er jafnframt falið að skila tillögum um úrbætur. Ég bind vonir við það, m.a. á grundvelli niðurstaðna nefndarinnar, að mótuð verði stefna varðandi aðbúnað og þjónustu við útlendinga hér á landi. Vinnumálastofnun fylgist með þeim sem eru með atvinnuleyfi og reynir að gæta réttar þeirra. Það er afar mikilvægt að vinna að framtíðarstefnu í málefnum útlendinga þar sem verkefninu yrði myndaður fastur rammi hvað varðar skipulag og lagaumhverfi.

[14:30]

Hvaða kvaðir eru lagðir á atvinnurekendur? Þeir verða í fyrsta lagi að sækja um leyfi fyrir tilgreindar persónur, þ.e. nafngreindar persónur. Það skal liggja fyrir undirritaður ráðningarsamningur um tiltekinn tíma eða til verkefnis sem tryggi erlendum starfsmanni laun og önnur starfskjör til jafns við heimamenn, samanber lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Atvinnurekandinn verður að undirgangast það að kosta ferðir útlendingsins og þar með heimferð.

Vinnumálaskrifstofan veitir ekki atvinnuleyfi nema ráðningarsamningur uppfylli ofangreind skilyrði. Áður en atvinnuleyfi er veitt hefur viðkomandi stéttarfélag einnig umsögn og umsagnarrétt um ráðningarsamninginn. Í langflestum tilfellum lætur stéttarfélagið annaðhvort átölulaust að viðkomandi atvinnuleyfi sé veitt eða það samþykkir að leyfið sé veitt.

Ef ákvæði ráðningarsamninga eru ekki haldin ber stéttarfélögunum náttúrlega að reyna að leysa slík ágreiningsefni og innheimta t.d. vangoldin laun en það hefur komið fyrir að Vinnumálastofnun hefur orðið að grípa inn í og afturkalla veitt atvinnuleyfi. Vinnumálastofnun hefur líka látið Heilbrigðiseftirlitið gera könnun á aðbúnaði erlends vinnufólks þegar við höfum fengið rökstuddan grun um að misfarið sé með það fólk. Enn fremur höfum við óskað eftir lögreglurannsókn þar sem upp hefur komið grunur um að milligöngumenn hafi verið að reyna að græða á því að selja útlendingum atvinnuleyfi með okurverði eða útvega útlendinga til vinnu gegn óhæfilegri þóknun.

Varðandi túlkaþjónustuna er réttur til túlkaþjónustu lögfestur í nokkrum tilvikum, þ.e. varðandi rétt sakbornings, vitnis eða annars sem gefur skýrslu fyrir dómi í opinberu máli og er ekki nægilega fær í íslensku.

Í 5. gr. laga um réttindi sjúklinga er kveðið á um rétt sjúklinga til upplýsinga um heilsufar og meðferð í heilbrigðisþjónustunni. Þegar sjúklingar eiga í hlut sem tala ekki íslensku skal tryggja þeim túlkun.

Íslendingar hafa einnig skuldbundið sig á margvíslegan hátt með milliríkjasamningum á félagslegu sviði þar sem hægt er að veita útlendingum sambærilega þjónustu og Íslendingum.