Jarðskjálftarannsóknir

Miðvikudaginn 08. nóvember 2000, kl. 14:58:06 (1455)

2000-11-08 14:58:06# 126. lþ. 21.7 fundur 100. mál: #A jarðskjálftarannsóknir# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Spurt er: Hvernig hyggst ráðherra nýta skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi um áhrif jarðskjálftanna á Suðurlandi 17. og 21. júní sem kynnt var 10. október sl.?

Því er til að svara að umrædd skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi hefur hvorki verið send né kynnt umhvrn. Því þekki ég ekki efni hennar að öðru leyti en því sem komið hefur fram í fjölmiðlum. Þessi jarðskjálftarannsóknarmiðstöð er ekki undir umhvrn. Ráðuneytið hefur óskað eftir eintaki af skýrslunni.

Í öðru lagi er spurt: Mun ráðherra láta gera áhættugreiningu sem nær til allra jarðskjálftasvæða landsins?

Í framhaldi af tillögum stjórnskipaðrar nefndar frá því í mars sl. er m.a. til athugunar hvernig unnið skuli að áhættugreiningu sem ég tel að nauðsynlegt sé að verði gerð. Ljóst er að verkefni er lýtur að áhættugreiningu í tengslum við jarðskjálfta þarf að vinna í samráði við ýmsa aðila. Málið tengist t.d. almannavörnum og viðbrögðum á vegum þeirra þannig að hér yrði um að ræða verkefni nokkurra ráðuneyta og stofnana. Það er hins vegar lögbundið hlutverk Veðurstofu Íslands að afla upplýsinga um jarðskjálftamál og meta hættu á jarðskjálftum, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 367/1996, um Veðurstofu Íslands. Það er því hlutverk Veðurstofunnar að annast hættugreiningu jarðskjálftasvæða en með henni eru metnar líkur á harðskjálftahreyfingu eða jarðskjálftavá sem er grundvöllur áhættugreiningar. Áhættugreiningin er síðan samstarfsverkefni Veðurstofunnar og annarra aðila eins og Almannavarna ríkisins, Aflfræðistofu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands, Raunvísindastofnunar háskólans, Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, verkfræðistofa o.fl.

Til frekari upplýsinga vil ég geta þess að á næsta ári er ætlunin að leggja aukið fé til bráðaviðvörunarkerfis fyrir náttúruhamfarir en til þess verður samkvæmt fjárlagafrv. varið 16 millj. kr. Einnig er nauðsynlegt að unnir verði séríslenskir staðlar um hönnunarþol bygginga, m.a. með hliðsjón af jarðskjálftum. Það mál er í sérstökum farvegi í ráðuneytinu en reiknað er með að það verk taki a.m.k. eitt ár.