Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:17:40 (1901)

2000-11-16 16:17:40# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram í tilefni af þessum ummælum að þrátt fyrir það blíða bros sem líður stundum yfir mínar varir og annarra þegar á Evrópusambandið er minnst, jafnvel hæstv. landbrh. og ýmissa úr flokki hans, þá er það samt þannig að Samfylkingin hefur sagt alveg skýrt að hún vill ekki að svo stöddu að Ísland gangi í Evrópusambandið. Það er alveg klárt að eitt af þeim samningsmarkmiðum sem við Íslendingar hefðum ef við mundum semja um aðild Íslendinga að Evrópusambandinu mundi að sjálfsögðu vera það að við hefðum fullt vald yfir innflutningi á hvers konar jurtum og lifandi dýrum líka. Það er algerlega ljóst.

Að því er varðar síðan hið litförótta hross, sem vakir stundum í draumum mínum, þá er það svo að mér rennur til rifja að Íslendingar sem hafa náð þessum mikla árangri í ræktun íslenska hestins láti líða hjá að halda utan um þetta afbrigði og reyndar ýmis önnur sérstök og einstök litaafbrigði sem er einungis að finna í íslenska hrossastofninum sem eru líka í hættu með að líða undir lok. Litförótt afbrigði er að vísu það sem hættast er komið en það eru einnig önnur, herra forseti.

Ég get að vísu ekki lagt fram skriflegar sannanir fyrir því að besta erfðaefnið sé að finna í Þýskalandi en þessar upplýsingar hef ég af heimasíðu Eiðfaxa og úr grein sem birtist í Morgunblaðinu í fyrra en nokkrar umræður spunnust þá einmitt að frumkvæði mínu um afdrif og framtíð litförótta hestsins. Ég sé ekkert á móti því að menn beiti sér fyrir auknu frjálsræði í þessum efnum. Ef menn vilja hleypa inn erfðaefni úr norskum nautgripum, úr hollenskum svínum, hvers vegna ekki íslenskum hesti sem svo vill til að hefur lögheimili í Þýskalandi?