Innflutningur dýra

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 16:19:56 (1902)

2000-11-16 16:19:56# 126. lþ. 26.5 fundur 154. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[16:19]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um innflutning dýra. Það er nú svo að það er litförótt sagan um árangur af innflutningi dýra hér á landi. Þar höfum við mátt líða hvað stærstu, nánast holskeflur fyrir heilu dýrategundirnar í mörgum tilvikum.

Það er svo sem engin sérstök ástæða til að rekja það hér en við getum þó verið minnug allt frá fjárkláða og til mæðiveiki, garnaveiki og fleiri sjúkdóma sem hafa hrjáð íslenskt sauðfé eru til komnir vegna ógætilegs innflutnings. Stöðu íslensku sauðkindarinnar var bjargað fyrst og fremst fyrir framsýni og dugnað einstaklinga en ekki vegna þeirra varúðarreglna sem voru þá uppi að öllu leyti.

Í dag heyrum við stöðugt í fréttum sögur og lýsingar á sjúkdómum sem breiðast á milli landa og enginn veit nánast hvernig þeir smitast en afleiðingin getur orðið svo afdrifarík að það verður að farga heilum stofnum í sumum löndum. Ekki er enn séð fyrir endann á því, t.d. hvað lýtur að nautgripum, þeim sjúkdómum sem þar herja og ganga í fólk, fyrst í Bretlandi og nú í Frakklandi. Við heyrum um þetta víðar í Evrópu og þyrfti ekkert að koma á óvart vegna þess mikla samgangs sem hefur verið á milli allra landa Evrópu að sá sjúkdómur sem þar er verið að kljást við sé kominn í öll lönd Norður-Evrópu, vonandi að undanskildu Íslandi þó að engin trygging sé fyrir því.

Það eru því gríðarlegir hagsmunir í húfi, herra forseti, að hér sé farið að með mikilli gát. Það er svo auðvelt að skemma, það er svo auðvelt að eyðileggja og það er svo auðvelt að vera vitur eftir á í þeim efnum sem við ræðum hér.

Herra forseti. Það er nú svo að það veit enginn hvað átt hefur fyrr en misst hefur hvað varðar hreinleika og heilnæmi þeirra dýrategunda sem við erum með. Því er fyllilega ástæða til að alls öryggis sé gætt. Því ber í sjálfu sér að fagna, eins og tekið er fram í greinargerð með frv. um innflutning, að þessi innflutningur hefur í meginatriðum gengið áfallalaust og ekki hafa komið upp sjúkdómar sem tengja má innflutningi, enda eru mjög strangar kröfur gerðar um heilbrigði innfluttra dýra, erfðaefnis og sóttvarnir þegar til landsins kemur. Þung áhersla er lögð á það af hálfu landbrn. að tryggja heilbrigði dýrastofna sem fyrir eru í landinu og viðhalda þeirri gæðaímynd sem Ísland og íslensk matvælaframleiðsla hefur. Því er með þessu frv. ekki lagt til að breyta núverandi skipan sóttvarna og einangrunar vegna innflutnings dýra.

Markmiðið eða sú sýn sem hefur verið unnið eftir á að vera óbreytt frá því sem þarna kemur fram þannig að þessi lög eiga í sjálfu sér ekki að hafa í för með sér að slakað verði á öllum sóttvarnakröfum sem eru í gildi. Hins vegar er verið að slaka á framkvæmdinni. Með framkvæmd á þeim sóttvarnaaðgerðum sem hafa verið hér á landi er verið að gefa slakann fyrir eftirlitinu og það er verið að gefa slakann fyrir því að meiri hætta sé á að óhöpp og slys verði.

Líka er vert að gera sér grein fyrir því, herra forseti, sem er í húfi varðandi sóttvarnir og heilnæmi og heilsu dýra, að sjúkdómar sem þarna gætu komið upp þurfa ekki endilega að gera vart við sig innan mjög skamms tíma. Það getur liðið ár og jafnvel áratugur uns sjúkdómar geta gert vart við sig á yfirborðinu þó svo þeir hafi borist hingað við innflutning. Þess vegna er þetta svo gríðarlega vandasamt og má ekki hrapa hér að eða láta undan einhverjum tímabundnum þrýstingi eða löngun einstaklinga eða hópa til þess að látið verði af ýtrustu óskum þeirra sem samræmast alls ekki kröfum almannaheilla í landinu.

Ég vil því vara við þeim skrefum sem hér er verið að stíga. Það er verið að stíga það skref um framkvæmd og eftirlit að það eigi að vera möguleiki að færa það úr höndum hins opinbera og einkavæða það, fela það í hendur einstaklinga og félagasamtaka og opna þannig fyrir slakara eftirlit. Það kerfi sem við höfum þó byggt upp með einangrun í Hrísey er að því er við best vitum þannig að enn hefur vel tekist til. En ég undirstrika, herra forseti, ,,að því er við best vitum enn`` því að það geta liðið mörg ár frá því að innflutningur sjúkdóms á sér stað og þangað til hann kemur fram. Þess vegna undirstrika ég að enn eru ekki merkjanleg bein óhöpp eða slys vegna þess arna. Það ber að lofa og þá ber einmitt að læra af því og treysta það sem fyrir er frekar en að slaka á og gefa hugsanlega lausari taum. Við höfum átakanleg dæmi erlendis frá um hvað þetta getur þýtt. Við höfum t.d. þennan Creutzfeldt-Jakobs sjúkdóm sem er nú að blossa upp og við skulum vona að við séum laus við hann. En það ætti að vera okkur áminning um að taka ekki óþarfaáhættu og ég brýni hæstv. landbrh. og síðan hv. landbn. til að fara mjög ítarlega í það frv. sem hér er og kanna hvort ekki sé farið þarna fram af of mikilli óvarkárni og hvort ekki sé réttara að stíga hægar til jarðar og hafa meira öryggi og láta öryggissjónarmið og vafann þá vera þeim megin að við sláum ekki á öryggiskröfurnar sem verða að vera um innflutning á dýrum. Í því felst þjóðarheill okkar varðandi það að búa hér í landi með dýr okkar hvort sem þau eru búsmali eða önnur dýr.