Jarðalög

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 17:31:08 (1924)

2000-11-16 17:31:08# 126. lþ. 26.6 fundur 73. mál: #A jarðalög# (endurskoðun, ráðstöfun jarða) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekki heyrt um eitt einasta tilfelli í sjálfu sér þar sem jarðanefndir hafa farið þannig að. En ég tek undir með hv. þm. að hlutverk jarðanefnda hefur mikið breyst, sveitarfélög hafa stækkað og tímarnir eru líka breyttir og búskaparhættir einnig. Eitt er ljóst að land, landgæði, eru vaxandi auðlindir um alla veröld. Jarðaverð á Íslandi, þrátt fyrir stöðu landbúnaðarins og erfiðleika bænda, hefur kannski aldrei verið hærra en það er í dag. Það er eftirsótt og ég sé ný búsetuskilyrði miðað við tæknina í landinu. Jarðirnar eru fasteignir sem eru eftirsóttar af fólkinu í landinu og auðvitað þurfa þau viðskipti sem mest að samrýmast því sem gerist í nútímaþjóðfélagi. Svo kann að vera að menn þurfi að vaka yfir ýmsum náttúruperlum og halda utan um þær þó að margar séu í góðum höndum hjá einstaklingunum en ég tel samt mikilvægt að vaka yfir þeim.

Í sjálfu sér vil ég ekki taka undir það að ekkert hafi gerst á einu og hálfu ári í jarðalögunum. Nefndin er nú á fullu og ágætur lögmaður ráðuneytisins, Sigríður Norðmann, leiðir það starf. Það er því heilmikið að gerast. Þetta eru flókin mál. Deilur eru um land því að það er oft heilagt mál og tilfinningamál. Ég sé deilur þar sem menn deila um hálfan og heilan hektara og eiga þó kannski þúsundir hektara. Þetta eru alltaf vandmeðfarin mál og skýr lög þurfa að gilda um þessi ákvæði sem stangast ekki á við önnur atriði.