Tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 18:26:57 (1933)

2000-11-16 18:26:57# 126. lþ. 26.8 fundur 9. mál: #A tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins# þál., DrH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[18:26]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ýmislegt hefur verið gert af hálfu stjórnvalda og einstaklinga til endurheimtu votlendis en votlendi setur mikinn svip á íslenska náttúru og myndar samofið net frá fjörum og leirum upp um ósa, ár og vötn og til mýra og flóa. Votlendi er mikilvægt búsvæði fugla, smádýra og plantna og fjölmargar tegundir byggja tilvist sína á því. Margvísleg ferli eiga sér stað í votlendi, svo sem vatnsmiðlun, mómyndun og uppsöfnun sets. Sökum þessara ferla hefur óraskað votlendi mikið gildi sem samofin eining í landinu, sérstaklega hvað varðar vatns- og efnabúskap stærri landslagseininga.

Okkur er fullljóst að á síðari hluta þessarar aldar hefur votlendi hér á landi tekið miklum breytingum vegna framræslu og ræktunar mýra. Framræsla mýra hefur verið búskap í mýrlendum sveitum lyftistöng og styrkt stoðir landbúnaðarframleiðslu í landinu. Nú er svo komið að á láglendi hafa mýrar víðast hvar verið ræstar fram og lítið er eftir af ósnortnu votlendi.

Frá árinu 1996 hefur verið starfandi á vegum landbrn. nefnd um endurheimt votlendis. Árið 1996 var í fyrsta sinn farið út í endurheimt votlendis á vegum nefndarinnar en hún var skipuð af þáv. landb.- og umhvrh. sem þá var Guðmundi Bjarnasyni. Hafði nefndin það hlutverk að gera tillögur um hvar og hvernig megi gera tilraunir með að endurheimta hluta þess votlendis sem þurrkað hefur verið upp með framræslu.

Fullyrða má að þetta starf hafi vakið jákvæða athygli flestra þeirra sem hugsa um þessi mál, sem hefur m.a. komið fram í fjölda ábendinga og jákvæðra viðbraðga alls staðar að af landinu. Nefndin markaði sér þá stefnu í upphafi að fara hvergi fram með offorsi, heldur vinna að framkvæmdum í samvinnu og með fullu samþykki viðkomandi aðila. Hefur hvergi komið til árekstra en vegna þessa hefur verið hætt við framkvæmdir þar sem einhugur hefur ríkt meðal viðkomandi landeigenda og landnotenda.

Mikilsverðasti árangur af þessu starfi er að það hefur valdið hugarfarsbreytingu í þá veru að nú er ekki ráðist í viðamiklar framkvæmdir sem hafa í för með sér þurrkun lands nema að vel athuguðu máli. Einnig hefur verið mörkuð sú stefna að þar sem votlendi er spillt vegna opinberra framkvæmda verði að endurheimta annað í staðinn.

Í fjárlögum árið 1999 var veitt 1 millj. kr. í verkefnið og það fjármagn var nýtt til að koma til móts við kostnað hjá einstaklingum sem vilja endurheimta votlendi en vantar til þess lítils háttar stuðning.

[18:30]

Á vegum votlendisnefndar og Fuglaverndarfélags Íslands hefur votlendi meðal annars verið endurheimt á eftirfarandi svæðum:

Hestmýri í Borgarfirði er fyrsta votlendið sem endurheimt var á vegum votlendisnefndar.

Kolavatn í Holtum, Rangárvallasýslu er í landi jarðarinnar Þjóðólfshaga II í Rangárvallasýslu.

Friðland í Flóa. Sumarið 1997 voru skurðir stíflaðir í votlendi norðaustan við Ölfusárós. Verkefnið er samvinnuverkefni Fuglaverndarfélagsins og Eyrarbakkahrepps og styrkt af Umhverfissjóði verslunarinnar.

Dagmálatjörn í Biskupstungum. Í maí 1998 fór votlendisnefnd út í aðgerðir til að endurheimta Dagmálatjörn í landi jarðarinnar Múla í Biskupstungum.

Gauksmýrartjörn á jörðinni Gauksmýri í Vestur-Húna\-vatns\-sýslu var endurheimt sumarið 1999.

Lútandavatn í Flóa. Aðgerðir til að endurheimta Lútandavatn voru hafnar 1999.

Vallanes á Héraði. Í lok sumarsins 1999 endurheimti Eymundur Magnússon, bóndi að Vallanesi í samvinnu við votlendisnefnd um tveggja hektara mýri með því að ýta ofan í um 1.000 m langan skurð.

Fréttir hafa borist af nokkrum öðrum svæðum þar sem einstaklingar hafa endurheimt votlendi á jörðum sínum. Dæmi um það eru:

Guðsteinn Sigurjónsson endurheimti árið 1995 um fjögurra hektara tjörn skammt norðan við Borgarnes. Tjörnin sem heitir Álatjörn er ákaflega falleg og umkringd birkikjarri.

Álftavatn á Höfða á Héraði sem endurheimt var haustið 1997.

Lambhagavatn í Rangárvallasýslu. Útfallsskurður úr vatninu var stíflaður árið 1998 til að hækka í því, en vatninu hafði verið spillt verulega með framræslu. Þess má geta að nú er í þessu vatni mikil veiði,

Sólheimar í Landbroti. Björn Jónsson hefur með jarðvegsstíflu myndað tjörn með stararflóa í kring. Þessi framkvæmd hefur aukið fjölbreytileika lands sem var sviplaust og bauð ekki upp á marga kosti. Þar verður athvarf silunga og fugla.

Herra forseti. Ég vildi aðeins geta þess hér að margir eru að huga að þessum málum, hafa áhuga á því að endurheimta votlendi og í rauninni hefur orðið mikil vakning meðal þjóðarinnar til þess að fara út í þá hluti.