Fjárlög 2001

Föstudaginn 08. desember 2000, kl. 18:34:51 (3073)

2000-12-08 18:34:51# 126. lþ. 44.13 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv. 181/2000, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 126. lþ.

[18:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Fyrir mörgum árum var sá sem hér stendur í því virðulega embætti að vísa til sætis í Austurbæjarbíói í tvö ár. (Gripið fram í: Í Austurbæjarbíói? ) Það hét það þá. Ég get sagt þér hvar það er. Hv. þm. er utanbæjarmaður náttúrlega. Og þá man ég til þess að það gerðist með kvikmyndirnar að stundum voru fáeinar sýningar eftir og svo var síðasta sýning og svo var allra síðasta sýning og svo var allra, allra síðasta sýning og svo allra, allra, allra síðasta sýning. Þetta datt mér í hug vegna þess að ég var næstur á mælendaskrá eftir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, Fyrir 20 mínútum síðan sagði hann: ,,Að lokum þetta, herra forseti``. Svo sagði hann þetta átta sinnum. (Gripið fram í: Taldirðu?) Ég taldi. Hann gengur því lengra í þessu en þeir í Austurbæjarbíói sem stóðu sig þó ákaflega vel. Og alltaf kom eitthvað mjög merkilegt í hverri nýrri tilkynningu um það að hv. þm. væri að ljúka máli sínu. En ég þakka honum fyrir hversu ítarlega og vel hann fór yfir þetta.

Hv. þm. vék nokkuð að mér í spjalli sínu og það hafa sumir aðrir hv. þm. gert hér fyrr í dag. Sérstaklega hafa menn rætt um þá spá sem Þjóðhagsstofnun lét nýlega í té og var í rauninni aðeins endurnýjun á mjög ungri spá frá þeirri ágætu stofnun og var nú ekki mjög margt nýtt sem þar kom fram í sjálfu sér. Þó hafa menn einkum rekið hornin í tvennt, þ.e. annars vegar hækkun á verðbólguspá eða verðlagsspá og hins vegar það sem menn lásu út úr skýrslunni, bersýnilega við mjög hraðan lestur því skýrslan var ekki nema tvær eða þrjár síður, að spáð væri auknum viðskiptahalla. Þetta seinna er ekki í skýrslunni. En það má segja þeim mönnum til hróss sem þetta lásu úr skýrslunni að þeir hafa svo mikla tiltrú í þjóðfélaginu að flestir fjölmiðlar tóku þetta upp og fullyrtu að spáð væri auknum viðskiptahalla. En það er ekki gert í skýrslunni. Það koma að vísu fram í neðanmálsgreinum skýringar á því að Þjóðhagsstofnun hafi tekið upp annan hátt í fyrri skýrslum sem hún breytir núna, sem varðar meðferð á vöxtum af eignum Íslendinga erlendis. Seðlabankinn er andvígur þeirri uppfærslu og þess vegna fellur Þjóðhagsstofnun í hið gamla far og við það breytast þessar tölur. Það hefur ekkert með viðskiptin að gera. Þau hvorki minnka né stækka innan lands eða til útlanda. Ef menn hefðu lesið allar þessar þrjár síður áður en þeir töluðu í 20--30 vélrituðum síðum eða svo um málið, hefðu látið það eftir sér að lesa allar þessar þrjár síður, þá hefði þeim ekki orðið þetta á í messunni að þessu leyti til og fullyrt alls konar hluti sem fjölmiðlar hafa síðan tekið eftir þeim og munu náttúrlega fyrir vikið treysta þeim lakar næst þegar þetta kemur upp.

Af því að við þingmenn viljum hag lands og lýðs sem bestan og erum ekki í einhverju gleðiskapi ef við fáum vond tíðindi, þá ætti það nú að gleðja okkur mest við að lesa þessa skýrslu Þjóðhagsstofnunar að staða efnahagsmála er staðfest þar sem sterk og er í öllum grundvallaratriðum sterk og traust um þessar mundir. Meira að segja kemur fram að hagvöxturinn á þessu ári er meiri en Þjóðhagsstofnun hafði áður gert ráð fyrir. Enn fremur kemur fram, sem hlýtur að teljast jákvætt, að útflutningur er nú talinn verða meiri en áður var spáð, bæði á þessu ári og á hinu næsta ári. Og það sem kemur fram með þessa þróun má ekki síst rekja til áframhaldandi mikils vaxtar hjá þeim greinum sem hafa verið kallaðar að teljast til hins nýja hagkerfis sem við höfum bundið vonir við. Þetta kemur allt fram í töflunum og skýrslunni. En menn hafa ekkert minnst á það, öll þessi meginatriði sem skipta höfuðmáli fyrir land og lýð.

Síðan kemur aftur verðlagsspáin. Menn geta velt henni fyrir sér. Þar kemur fram að Þjóðhagsstofnun styðst við hina gömlu formúlu hvað þetta varðar, að þegar gengið breytist þá muni verðlag hækka eftir nokkurn veginn fastmældu, öruggu kerfi. En þá er nú dálítið athyglisvert að horfa til þess hvernig gengið hefur breyst frá nóvember til þessa dags. Frá maí þegar það var hæst til nóvember, eða til þessa dags í desember, hefur gengið breyst um 10%. Samkvæmt gömlu tölunni, þumalfingurstölunni, hefði verðlag af þessum sökum átt að hækka um 4%. Og hvað hefur það hækkað um af þessum sökum? Um 0,7%. Þetta er vegna þess að við búum við allt aðra samkeppnisstöðu en áður fyrr. Við búum líka við lægri verðbólgumælikvarða sem verður til þess að menn fylgjast betur með verðlagi en áður fyrr. Það var erfiðara áður fyrr. Fram til þessa dags hafa því afleiðingar af sigi krónunnar um 10% frá því það var hæst í maí, verið 0,7%, ef við sleppum bensíni úr þessum reikningum.

Þjóðhagsstofnun gerir síðan ráð fyrir því að gengið verði óbreytt frá því sem það er nú og virðist því áætla að þessar gengisbreytingar frá því í maí muni allar skila sér á örfáum mánuðum næsta árs og síðan verði nánast engin hækkun upp frá því og verðlag bara slétt og fellt. Þetta má lesa úr þessari könnun ef menn vilja gera það.

Út af fyrir sig ekkert að finna að spánni í sjálfu sér. Hún byggir á þessum gömlu aðferðum og menn hafa ekki breytt um aðferð þrátt fyrir að reynsla okkar allt frá 1993 sýni allt aðra sögu varðandi þróun gengis annars vegar og verðlags hins vegar. Við stóðum að því sum hver hér í þessum sal að breyta gengi meðan við réðum þessu og gerðum það með handstýringu öfugt við það sem nú er gert. Ef við breyttum gengi um 7,5% niður á við var gert ráð fyrir því að það hefði áhrif upp á 3% í verðbólgu samkvæmt þessari gömlu reglu. Eins og við munum þá gerðist það ekki. Það gerðist ekki og var afskaplega athyglisvert. Það sem þar skipti mestu máli var aukin samkeppni. En það er einnig orðið þannig sem ekki var áður að fyrirtækin, innflytjendur og aðrir slíkir, verja sig gagnvart gengisbreytingum, tryggja sig fyrir fram gagnvart gengisbreytingum, þannig að afleiðingarnar verða ekki þær sömu og áður var.

Fram að þessu höfum við haft hvað mestar áhyggjur af því hver þenslan kynni að vera í þjóðfélaginu. Nú er varla hægt um það að deila að flestar nýlegar vísbendingar um efnahagsþróun eru í átt til þess að eftirspurn í hagkerfinu fari nú mjög minnkandi, ekki síst í því sem varðar neyslu og að verðbólga fari af þeim sökum m.a. fremur minnkandi, ef menn taka þann útreikning sem eingöngu er bundinn við verðbólgukipp út af gengisbreytingum sem hafa orðið frá því í maí sl. þegar gengið reis hæst.

Við sjáum að olíuverð fer nú loks lækkandi. Spá Þjóðhagsstofnunar gerir ekki ráð fyrir því. Hún tekur það ekki inn í sína reikninga að olíuverð breytist nú í heilt ár. Olíufélögin lækkuðu meira að segja verðið nú fyrir ekki löngu. Það mun auðvitað mælast í vísitölu. Verð á olíufati er nú komið úr 36 dollurum niður í 28 sem er heilmikil breyting. Flestar alþjóðaspár gera ráð fyrir því að olíuverð fari lækkandi á næsta ári.

Í verðlagsspánni er ekki gert ráð fyrir breytingum á fasteignaverði, óbreytt fasteignaverð. En allar upplýsingar sem við höfum í augnablikinu benda til þess að fasteignaverð fari nú lækkandi. Staðan á fasteignamarkaðinum hefur gjörbreyst og menn búast við lækkun á fasteignaverði á næstu mánuðum fremur en hækkun, miklu fremur lækkun en hækkun. Og auðvitað munu aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu vera til þess fallnar að treysta stöðu gjaldeyrissjóðs okkar og ekki er vafi á því að slíkar ákvarðanir hafa jákvæð áhrif á þróun efnahagslífsins sem heildar.

[18:45]

Það er þess vegna alveg rétt sem var haft eftir hæstv. utanrrh. á fundi, hygg ég í gær, að þær aðgerðir í einkavæðingarmálum hefðu jákvæð áhrif á þróun efnahagsmála og það væri ein af ástæðunum fyrir tímasetningunni að ákveða sölu á eignum einmitt núna. Því auðvitað eiga menn að selja eignir, ef menn ætla að selja eignir ríkisins, á tímum sem eru hagfelldastir fyrir það efnahagsástand sem við búum við á hverjum tíma. Ég tek algjörlega undir þau sjónarmið sem þarna var vitnað til að höfð væru eftir hæstv. utanrrh.

Menn hafa haldið því fram að ég hafi jafnan gert lítið úr viðskiptahallanum. Það má vitna til margra orða í ræðum sem ég hef flutt þar sem ég hef nefnt viðskiptahallann sérstaklega til sögunnar, að vísu get ég þess að oftast nær hafi verið viðskiptahalli hér á landi, langoftast, þó að þau ár hafi komið að viðskiptaafgangur hafi verið. Þó að það hafi ekki oft verið þá hefur það einmitt gerst núna eða fyrir fáeinum árum.

Ég hegg eftir því að menn vilja gera lítið úr því þegar sagt er að viðskiptahalli geti verið margvíslegur og af margvíslegum rótum sprottinn og það skipti máli við hvers konar ríkissjóðshalla menn búa. Þannig hef ég sagt að ríkissjóðshalli sem drifinn er áfram af vitlausum fjárfestingum ríkisins (Gripið fram í.) sé negatífur halli en viðskiptahalli sem mótast af því að ríki og einkaaðilar gera skynsamlegar ráðstafanir sé jákvæður viðskiptahalli vegna þess að hann er að byggja upp og búa í haginn fyrir framtíðartekjur þjóðarinnar með nákvæmlega sama hætti og gert er af hálfu fyrirtækja og fólks. Menn hafa stofnað sér í skuldir vegna þess að þeir fara í arðbærar framkvæmdir, reistar á skynsamlegu mati á því verkefni og það hefur ýtt undir vöxt og viðgang. Þess vegna finnst mér það afskaplega þýðingarmikið að menn hafi í huga hver samsetning viðskiptahallans er.

Á síðasta ári var mikil þensla í efnahagslífinu, launahækkanir voru miklar, eftirspurn eftir vinnuafli var mikil eins og menn vita. Auðvitað gætti alls þessa í auknum innflutningi sem ekki síst mátti rekja til aukins innflutnings á neysluvörum. Það voru neikvæð tákn í umræðum um viðskiptajöfnuð.

En þetta hefur alveg breyst. Þetta hefur algjörlega snúist við. Þeir sem voru að lesa töflurnar og lásu svo óskýrt virðast ekki hafa haft hugmynd um að þetta hafi algjörlega breyst.

Fyrstu tíu mánuði þessa árs hefur innflutningur aukist um 15 milljarða kr. Þar af skýrir innflutningur neysluvöru einungis hálfan milljarð kr. eða um 5%. Það sem eftir stendur stafar af innflutningi rekstrarvöru og fjárfestingarvöru. Með öðrum orðum neysluæðinu, sem hefur verið kallað svo, virðist vera lokið. Það var hinn neikvæði þáttur uppbyggingar á viðskiptahalla. Það er afar þýðingarmikið að menn þekki til þessara grundvallarreglna áður en þeir fara að hafa uppi stór orð um spár sem þeir hafa ekki einu sinni lesið í gegn. Það er nauðsynlegt að lesa þær í gegn en síðan er þýðingarmikið að þekkja til nokkurra grundvallaratriða um túlkun á slíkum spám.

Það er þýðingarmikið að menn horfi á það að allar grundvallarundirstöður efnahagslífsins eru um þessar mundir traustar. Og ef þær eru traustar þá á ekki að segja við fólk að þær séu ekki traustar. Ef verðlag á mörkuðum okkar er hagstætt, ef helstu undirstöður okkar eins og í sjávarútvegi eru reknar á traustum grunni, fiskstofnarnir standa sæmilega, þá á ekki að segja að þær standi einhvern veginn öðruvísi. Ef þeir þættir sem lúta að hinu nýja hagkerfi eru að skila okkur fjölmörgum nýjum tækifærum og nýju fjármagni þá eiga menn ekki að láta líta svo út að þeir séu ekki að gera það. Það er þvert á móti skylt, bæði rétt og skylt að segja þjóðinni frá þessu.

Það er af þessum ástæðum sem ég er bjartsýnn um hag þjóðarinnar. Og þó að sumir hafi gripið þessa spá Þjóðhagsstofnunar um verðlagsbreytingu og ekki lesið fyrirvarana sem hún hefur í þessum efnum --- og þá sleppi ég þeim mistökum sem þeir hafa gert varðandi viðskiptahallann --- og grípa þetta sem eitthvert haldreipi um að hér sé allt að fara í ógöngur þá eru menn ekki að tala réttu máli og eru ekki að leggja fram jákvætt innlegg í þróun íslensks efnahagslífs.

Auðvitað er það mjög jákvæð þróun í efnahagslífi okkar að við skulum hafa getað fjármagnað með gjaldeyrisvarasjóði okkar inneignir erlendis upp á nálega 200 milljarða kr., það stefnir í að vera heil fjárlög sem við höfum þar. Þar hlaðast á vextir sem síðar meir með afborgunum munu skila sér hingað heim og vera viðvarandi styrking í gjaldeyrisvarasjóð okkar. Auðvitað er það fagnaðarefni fyrir okkur að sjá slíkt gerast, slíkt hafði aldrei áður gerst. Og gengið og okkar litli gjaldeyrisvarasjóður hefur risið undir öllu þessu og fjölmörgu öðru sem mikilvægt er.

Við sjáum að bankakerfið hefur farið að með miklu meiri varúð nú en það gerði á sínum tíma og staðan í bankakerfinu er miklu betri nú en stundum áður. Þannig er lausafjárstaða bankanna mjög viðunandi um þessar mundir sem er afar þýðingarmikið og erlend skammtímalán þeirra hafa minnkað mjög frá því sem þau voru hæst, sem er afskaplega þýðingarmikið efnahagslega. Allir þessir þættir eru því mjög jákvæðir.

Auðvitað hefur það mikla þýðingu að hæstv. fjmrh. skuli leggja fram frv. með mjög miklum afgangi. Við tölum um tölur í fjárlagafrv. samkvæmt því fyrirkomulagi sem við höfum nú á uppfærslu frumvarps að fjárlögum. Við gerðum þetta með öðru móti áður fyrr, þá skiluðu reikningarnir sér miklu síðar inn. Og meira að segja við þær aðstæður voru menn að reka ríkissjóð með stórfelldum halla, stórkostlegum halla og byggja þar með upp óvarlega stöðu fyrir komandi kynslóðir. Það erum við ekki að gera um þessar mundir og það er mikið fagnaðarefni.

Spá Þjóðhagsstofnunar gefur því ekkert tilefni til þess að menn séu með þau viðbrögð, þau óábyrgu viðbrögð sem þeir hafa haft uppi, vonandi eingöngu vegna vanþekkingar í tilefni af þeirri spá.