Svör um sölu ríkisjarða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:10:31 (3599)

2002-01-28 15:10:31# 127. lþ. 61.92 fundur 277#B svör um sölu ríkisjarða# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Það hefur satt að segja verið dapurlegt hvernig mál hafa gengið fram á hinu háa Alþingi þegar kemur að því að fá eðlilegar og sjálfsagðar upplýsingar úr herbúðum ríkisstjórnarinnar frá einstökum ráðherrum hennar.

Það mál sem hér er vakin athygli á varðar hæstv. landbrh. Það er sérstakt að mörgu leyti. Hægt og bítandi koma þær upplýsingar sem um var beðið á haustdögum. Nú er borið við persónuvernd. Ég vek hins vegar athygli á því í því samhengi að við verðum að gæta jafnræðis þegar kemur að vernd persóna. Ég sé í fjölmiðlum að einstakir kaupendur ríkisjarða eru tíndir til, svo sem bræður hæstv. ráðherra. Hvers eiga þeir að gjalda? Raunar hafa einstakir þingmenn verið kallaðir til sögu og ekki verið varðir í þessu samhengi. Hvers eiga þeir að gjalda? Ég hygg að það sé eðlilegt og sjálfsagt að öll nöfn séu uppi á borðum.

Í því samhengi vil ég rifja upp, herra forseti, að ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh. þann 5. desember sl. þar sem ég fór fram á það að hann upplýsti þingheim um hvernig hann hefði farið með heimildir til sölu og kaupa á eignum í fjárlögum fyrir árið 2001 og hvert hafi verið söluverð einstakra eigna ríkissjóðs, hverjir hefðu keypt og hvert hefði verið kaupverð einstakra eigna og hverjir seldu. Nú er sá tími liðinn sem hæstv. fjmrh. hefur haft til að svara þessari fyrirspurn. Ég leita eftir upplýsingum frá honum eða hæstv. forseta um hvenær ég fái þessar upplýsingar upp á borð. Ég vænti þess að þær berist fyrr og skilmerkilegar en raunin hefur verið í málum sem snúið hafa að hæstv. landbrh.