Samþjöppun fyrirtækja á matvælamarkaði og hækkun vöruverðs

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:29:49 (3611)

2002-01-28 15:29:49# 127. lþ. 61.1 fundur 272#B samþjöppun fyrirtækja á matvælamarkaði og hækkun vöruverðs# (óundirbúin fsp.), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ef stórfyrirtæki misnota markaðsráðandi stöðu þá er það ólöglegt. Samkeppnislög kveða á um að það sé ekki heimilt. Spurningin er hins vegar sú hvort þetta sé staðreynd, hvort þessi fyrirtæki séu að misnota markaðsráðandi stöðu og það er hlutverk Samkeppnisstofnunar að fylgjast með því og bregðast við ef svo er.

[15:30]

Hv. þm. vitnar til umræðu sem var hér á fyrsta degi þingsins eftir jólahlé um efnahagsmál þar sem hann tjáði sig þess efnis að rétt væri að gera löglegt, sem ég tel ekki löglegt í dag, að heimila Samkeppnisstofnun að skipta upp fyrirtækjum verði þau of stór og ráðandi á markaðnum. Hæstv. forsrh. tjáði sig einnig og taldi þetta koma til greina. Ég hef sagt opinberlega í framhaldi af því að ef samstarfsflokkurinn er þeirrar skoðunar að styrkja eigi samkeppnislögin og Samkeppnisstofnun, þá er ég mjög fylgjandi því og tel að það hafi verið skynsamlega mælt af hálfu forsrh.

Hins vegar er ég ekki sannfærð um að þetta geti gengið. Mun það standast stjórnarskrá t.d. að skipta þannig upp fyrirtækjum að aðilum verði gert skylt að selja? Því það er ekki nóg að skipta þeim upp ef sömu aðilarnir eiga svo fyrirtækin bæði tvö á eftir. Ég held því að þarna séu ýmis efni sem eru óútkljáð og eins að það er ekki bara í smásöluverslun sem fyrirtæki hafa markaðsráðandi stöðu á Íslandi, það er á mörgum öðrum sviðum eins og í sambandi við flutninga, flug og fleira.