Opnun Þjóðminjasafnsins

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 15:44:25 (3622)

2002-01-28 15:44:25# 127. lþ. 61.1 fundur 275#B opnun Þjóðminjasafnsins# (óundirbúin fsp.), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[15:44]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Í sjónvarpsþættinum Silfri Egils í gær var örlítið rætt um framkvæmdir við hús Þjóðminjasafnsins sem hefur verið lokað frá 1. ágúst 1998. Þar kom fram að upphaflega hafði verið stefnt að því að opna húsið aftur árið 2000 og síðan árið 2001 en þá brá svo við að hæstv. menntmrh. kannaðist ekkert við dagsetningar í þessu máli, eða, með leyfi forseta: ,,Hver hefur sagt það? Hver sagði það? Hver hefur nokkurn tíma sagt að það ætti að opna þetta 2001? Ég hef aldrei sagt það. Ég hef aldrei sagt það.``

Þetta stangast á við blaðafréttir um framkvæmdir við Þjóðminjasafnshúsið. Í Morgunblaðinu 28. nóvember 1997 er haft eftir hæstv. menntmrh., með leyfi forseta:

,,Menn hafa verið með ýmsar vangaveltur um framtíðaraðstöðu fyrir safnið en nú var ákveðið að það yrði á sama stað. Stefnt er að því að búið verði að koma því í skaplegt horf árið 2000.``

Á Þorláksmessu sama ár er síðan þessi frétt í Morgunblaðinu, með leyfi forseta:

,,Ákveðið hefur verið að ráðast í miklar endurbætur á Þjóðminjasafni Íslands við Suðurgötu, sem kosta munu um 700 milljónir króna. Af þessum sökum verður safninu lokað um tveggja ára skeið, frá síðsumri 1998 til 17. júní árið 2000, að áformað er að opna safnið fyrir gestum á nýjan leik.``

Í sama blaði ári síðar, 7. nóvember 1998, er löng grein um Þjóðminjasafnið og rætt við Sturlu Böðvarsson, þáv. formann þjóðminjaráðs og núv. hæstv. samgrh. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sturla viðurkennir fúslega að tíminn fram til 17. júní árið 2000 sé mjög naumur og að nýta verði hvern dag. ,,En það er búið að gera grófar tillögur um nýtingu hússins``, segir hann og að arkitektinn vinni eftir þeim. ,,Það mætti hugsa sér``, segir formaður þjóðminjaráðs að lokum, ,,að húsið verði klárt og upp verði kominn veglegur hluti af heildarsýningunni.``

Í Morgunblaðinu 13. febrúar 1999 er svo sagt frá þessu, með leyfi forseta:

,,Björn Bjarnason menntamálaráðherra greindi í gær frá því að ákveðið hefði verið að fresta opnun Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu til 17. júní árið 2001, en þegar ákvörðun um endurbæturnar var tilkynnt í árslok 1997 var stefnt að því að ljúka framkvæmdunum fyrir 17. júní árið 2000.``

Þetta er vert að rifja upp vegna þess að yfirlýsingar hæstv. ráðherra: ,,Hver sagði það? Ég hef aldrei sagt það``, koma nokkuð spánskt fyrir sjónir í þessu ljósi og þá er að óska eftir að hæstv. menntmrh. svari í fyrsta lagi (Forseti hringir.) hvort Morgunblaðið segir ósatt um þessar dagsetningar sem ég hef hér þulið (Forseti hringir.) og í öðru lagi hvort komnar eru nýjar dagsetningar hjá hæstv. menntmrh.

(Forseti (HBl): Ég vil minna hv. þm. á að fara að þingsköpum.)