Bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 16:32:33 (3636)

2002-01-28 16:32:33# 127. lþ. 61.11 fundur 347. mál: #A bókhald, ársreikningar og tekjuskattur og eignarskattur# (reikningshald í erlendum gjaldmiðli) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[16:32]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum hér frv. til laga um breyting á lögum um bókhald og ýmsum öðrum lögum sem varða það að færa megi reikninga fyrirtækja í erlendri mynt.

Þetta frv. er lagt fram í framhaldi af þeim skattalækkunarfrv. sem samþykkt voru fyrir jól og marka afskaplega merkilegt skref í þá átt að gera íslensk fyrirtæki samkeppnisfær við erlend fyrirtæki. Ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. fjmrh. fyrir þennan pakka allan.

Hér er um það að ræða að bæta stöðu íslenskra fyrirtækja í samskiptum þeirra við erlend fyrirtæki, hindra að þau telji sig nauðbeygð að fara til útlanda eða sjái sér hag í að flytja starfsemi sína til útlanda og jafnframt að hvetja erlend fyrirtæki til þess að flytja starfsemi sína til Íslands.

Þegar íslensk fyrirtæki eiga samskipti við erlend fyrirtæki vakna margar spurningar hjá erlendu aðilunum og fyrst og fremst eru það náttúrlega spurningar um bókhald. Hlutafélag er jú félag með takmarkaðri ábyrgð og ábyrgðin felst í eigin fé fyrirtækisins sem menn þurfa að vita af og treysta. Traustið liggur í bókhaldinu. Þá er náttúrlega mikilvægt að erlendir menn skilji bókhaldið sem þeir hafa í höndunum.

Ég held að þetta sé því mjög gott skref þótt það sé kannski ekki alveg fullkomið því jafnframt á að færa bókhaldið í krónum og það verður meginundirstaða bókhaldsins, þ.e. bókhald í íslenskum krónum. Hitt er í rauninni bara þýðing á íslenska bókhaldinu. Það getur vel verið að menn sjái sér einhvern tímann fært að taka skrefið enn lengra og sjálfsagt að hv. efh.- og viðskn. meti það sérstaklega, hvort hægt sé að stíga það skref til fulls.

Ég ætla ekki að fjalla mikið meira um frv. Ég tel þetta mikið framfaraskref og þátt í að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs við atvinnulífið í öðrum löndum.