Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 28. janúar 2002, kl. 18:42:47 (3656)

2002-01-28 18:42:47# 127. lþ. 61.12 fundur 425. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar með dagatakmörkunum) frv. 3/2002, KVM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Karl V. Matthíasson (andsvar):

Herra forseti. Já, það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að smábátarnir hafa stækkað, enda er það mjög eðlileg þróun vegna þess hvernig fiskveiðistjórnarkerfið hefur leikið byggðirnar en það hefur líka orðið til þess að þeir allra minnstu bátar sem ég er að tala um --- og hæstv. ráðherra veit að ég er ekki að tala um þessa stóru báta, stóru trillurnar sem geta farið jafnvel 20 mílur á klukkustund, ég er að tala um báta sem sigla kannski 5--7 mílur og fara rétt út fyrir bryggjuna eða aðeins út á fjörðinn og veiða nokkra þorska. Það sem ég er að leggja til er að þeir gætu kannski selt örfá tonn fyrir hinum ýmsu gjöldum sem þarf að greiða í ríkissjóð svo m.a. væri hægt að standa straum af ýmsu sem lýtur að sjávarútvegi.