Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 13:58:08 (3772)

2002-01-30 13:58:08# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[13:58]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Sala á hlutabréfum ríkisins í Landssímanum hefur ekki gengið eftir eins og áform stóðu til. Ýmsar ástæður eru fyrir því eins og hér hafa komið fram.

Ég vil rifja upp að þegar ákvörðun var tekin um það á síðasta ári að hefja sölu á hlutabréfum í fyrirtækinu gerði þingflokkur Framsfl. m.a. þann fyrirvara að mótuð yrði framtíðarstefna um uppbyggingu fjarskiptakerfisins um allt land þannig að landsmenn eigi aðgang að sem sambærilegastri þjónustu fyrir sama verð og að fjármagn til nauðsynlegra framkvæmda yrði tryggt í því skyni. Einnig lagði þingflokkur framsóknarmanna áherslu á að eftirlitsstofnanir ríkisins sem koma að fjarskiptageiranum verði styrktar, m.a. til að tryggja eðlilega verðlagningu þjónustunnar og eðlilega samkeppni á fjarskiptamarkaði.

Í nefndaráliti meiri hluta samgn. vegna frv. um sölu Landssímans kemur m.a. fram að í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar telji meiri hlutinn eðlilegt að nýta hluta af söluverðmæti fyrirtækisins til að ná markmiðum um að upplýsingatæknin nýtist öllum landsmönnum sem best og að fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu takmarki ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni. Meiri hluti samgn. beindi því til hæstv. samgrh. að hann ynni í samstarfi við samgn. tillögur um að jafna kostnað við gagnaflutninga og þar með samkeppnisstöðu fyrirtækja um allt land og lagði meiri hluti nefndarinnar áherslu á að þeirri vinnu skyldi lokið fyrir árslok 2001.

Ég hef ekki uplýsingar um það frekar en fleiri hv. þm. hvernig staðan nákvæmlega er í dag um sölu á hlutabréfum Símans til kjölfestufjárfesta, en fregnir hafa borist af því að þeir séu ekki tilbúnir að greiða ásættanlegt verð fyrir eignarhlut í fyrirtækinu. Ef það er rétt hlýtur að vera fullt tilefni til að endurskoða áform um söluna og í þeim efnum hljótum við að líta til framtíðar og heildarhagsmuna í stað þess að drífa í að selja núna á verði sem við teljum ekki ásættanlegt.

Herra forseti. Ég legg áherslu á að ekki verði hvikað frá þeim markmiðum og áherslum sem framsóknarmenn hafa haft um fjarskiptakerfið, þjónustuna og verðlagningu hennar á landsvísu. Einnig legg ég áherslu á að hlutabréf ríkisins í Landssímanum verði ekki seld kjölfestufjárfestum nema fyrir ásættanlegt verð.