Sala Landssímans

Miðvikudaginn 30. janúar 2002, kl. 14:06:58 (3776)

2002-01-30 14:06:58# 127. lþ. 65.94 fundur 294#B sala Landssímans# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram í umræðunni að aðstæður hafa að mörgu leyti breyst frá því sem þær voru á þeim tíma þegar ákveðið var að selja Landssímann. Ljóst er að það verð sem stendur til boða að fá fyrir fyrirtækið er ekki í samræmi við þær væntingar sem hafðar voru uppi á þeim tíma þegar um þetta var rætt. Einnig er ljóst að einkenni einokunar og fákeppni á fjarskiptamarkaði eru miklu sterkari en ætla hefði mátt miðað við aðstæður eins og við töldum þær vera á sínum tíma.

Eðlilegt er að stjórnmálamenn endurmeti ákvarðanir sínar í ljósi breyttra aðstæðna og ég tek undir þau sjónarmið varaformanns stjórnar Símans, hv. þm. Magnúsar Stefánssonar, að við þessar aðstæður er rétt að endurskoða áform um sölu hlutabréfa Landssímans. Ég tel að við þessar aðstæður eigi að leggja meiri áherslu á að uppfylla það skilyrði þingflokks framsóknarmanna að byggja upp fjarskiptakerfi um land allt og tryggja verðlækkun á þjónustu þess þannig að hún verði sem sambærilegust um land allt.

Ég held, herra forseti, að það sem mestu máli skiptir sé að hafa slíka þjónustu til staðar í þeim mæli sem við teljum ástæðu til og að verðlagningin fyrir þá þjónustu sé sem jöfnust því það er stærsta málið sem við er að glíma og getur hjálpað okkur verulega í viðleitni okkar til að tryggja jafna stöðu þeirra aðila sem standa í atvinnurekstri um land allt.