Þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls

Fimmtudaginn 31. janúar 2002, kl. 18:12:09 (3874)

2002-01-31 18:12:09# 127. lþ. 67.17 fundur 389. mál: #A þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð hálendisins norðan Vatnajökuls# þál., HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 127. lþ.

[18:12]

Halldór Blöndal (andsvar):

Mér þykir vænt um að heyra það, herra forseti, að hv. þm. skuli fús að ræða atvinnumál hér í einstökum greinum síðar. Ég hlakka satt að segja til þeirrar umræðu.

Ég vil vegna þess sem hann sagði nú vekja athygli á því að ákvörðun eins og sú að ráðst í virkjun og álver hefur ævinlega verið tekin á Alþingi og reynst vel. Það er auðvitað rétt sem hv. þm. sagði í ræðu sinni hér fyrr, að ekki er hægt að taka þá ákvörðun aftur ef stíflað hefur verið. Ef virkjun hefur verið reist sitja menn uppi með virkjunina. Við sitjum uppi með Búrfellsvirkjun og Írafossvirkjun og við sitjum uppi með Ljósafossvirkjun. En erum við ekki bara ánægð með að sitja uppi með þessar virkjanir? Þessar virkjanir mala gull og eiga þátt í því að við Íslendingar getum látið fara vel um okkur og lifað hér því menningarlífi sem við lifum. Ég veit ekki hvernig ástandið væri hér ef sá hugsunarháttur hefði verið allsráðandi á árum áður að ráðast ekki í slík stórvirki.

Eins og ég hef áður sagt þá var Alþýðubandalagið á sínum tíma á móti Búrfellsvirkjun. Það var á móti álverinu. Ef ég man rétt var Hjörleifur Guttormsson stutta stund með álverinu meðan hann var iðnaðarráðherra. Að öðru leyti hefur Alþýðubandalagið verið á móti stórvirkjunum.