Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 11:40:50 (4218)

2002-02-07 11:40:50# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[11:40]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu ræðu sem hæstv. samgrh. flutti hér til að útskýra þetta frv. Að mörgu leyti tel ég að frv. móti nýja framtíð. Hins vegar er því ekki að leyna að maður hefur af því ákveðnar áhyggjur. Ég hef t.d. áhyggjur af því hvernig stærri hafnir muni eflast og þá jafnvel á kostnað minni hafna. Þessu held ég að þurfi að huga sérstaklega að þó að vissulega sé víða komið inn á það í frv.

Ég vil líka velta því upp og beina til hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi að huga sérstaklega að rekstri og möguleikum hafna sem á undanförnum 10 árum eða svo hafa orðið fyrir verulegum tekjusamdrætti. Ég veit ekki nákvæmlega við hvaða tölu ætti að miða en þetta þyrfti að skoða sérstaklega. Ég læt mér detta í hug að höfnum sem hafa misst einn þriðja af tekjum sínum eða meira á undanförnum 10 árum byðist sérstakur ríkisstyrkur. Það félli undir greinina um ríkisstyrki, undir ákvæði til bráðabirgða, og sá rekstrarstyrkur yrði t.d. til fimm ára og næmi helmingi af þeim samdrætti sem orðið hefði í höfnunum og mundi síðan eyðast út, lækka kannski um 10% á næstu fimm árum og falla síðan niður að fimm árum liðnum.

Ég held að nauðsynlegt sé að skoða að það hefur ábyggilega víða orðið verulegur tekjusamdráttur á undanförnum árum, sérstaklega hjá höfnum með mikla vöruflutninga --- sem hafa nú verið fluttir yfir á þjóðvegi landsins --- og þar sem aflasamdráttur hefur orðið verulegur af einhverjum orsökum. Þess vegna vil ég hvetja til þess við umræðuna að skoðað verði hvort ekki væri eðlilegt að svona ákvæði kæmi inn.