Hafnalög

Fimmtudaginn 07. febrúar 2002, kl. 12:24:02 (4231)

2002-02-07 12:24:02# 127. lþ. 72.6 fundur 386. mál: #A hafnalög# (heildarlög) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 127. lþ.

[12:24]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Frv. sem hér er til umræðu er ekki orðið að lögum og ræða mín samanstóð af þeim athugasemdum sem ég vildi koma á framfæri við það frv. áður en það fer í nefnd og verður unnið áfram. Ég lagði áherslu á að ég væri andvígur þeirri stefnu sem frv. lagði upp með að meginhluta, þ.e. einkavæðingu á höfnum og að það þyrfti til, að veita höfnum rétt til að fara í samkeppni hver við aðra.

Ég sagði að hafnir vítt og breitt um landið stæðu frammi fyrir öðrum og stærri vandamálum og viðfangsefnum, þær þyrftu fremur stuðning en að fá heimild til að keppa við nágrannahöfnina um löndunina. Ég held að það sé fyllilega ástæða til, virðulegi forseti, að hv. fulltrúi framsóknarmanna, Hjálmar Árnason, átti sig á hvers konar einkavæðingarferil hér er verið að fara út í.