Stjórnsýslulög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 15:57:28 (5892)

2002-03-11 15:57:28# 127. lþ. 94.5 fundur 598. mál: #A stjórnsýslulög# (vanhæfi) frv. 49/2002, LB
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[15:57]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Hér er að mörgu leyti mjög athyglisvert mál á ferðinni þó að það sé ekki stórt eða mikið að burðum. Þó er greinargerðin með því nokkuð ítarleg.

Eins og hér var rakið í framsögu þá er vitnað til dóms sem féll á síðasta ári og laut að vanhæfi umhvrh. Ég hef ekki kynnt mér þetta mál í þaula. En eins og ég hef lesið þetta þá finnst mér eins og einhvers misskilnings gæti í því frv. sem hér hefur verið lagt fram.

Hér er fyrst og fremst verið að fjalla um aðgerðir tiltekinna undirmanna í ráðuneyti, að í þessu tilviki, eins og ég skil málið, hafi verið kveðinn upp úrskurður á æðra stjórnsýslustigi þegar tilteknu atriði var vísað þangað, þ.e. að efnisatriði bréfs umhvrn. til heilbrigðisnefndar Vesturlands hafi verið á þá leið að í því bréfi hafi verið kveðinn upp efnislegur úrskurður og sá úrskurður var þá væntanlega kveðinn upp í umboði ráðherra því eins og segir í 14. gr. stjórnarskrárinnar þá ber ráðherra ábyrgð á stjórnvaldsathöfnum öllum.

Virðulegi forseti. Ég les út úr þessu fyrst og fremst að það breytir í sjálfu sér engu hvaða starfsmaður ráðuneytisins tekur ákvörðun eða hvernig hann bregst við tilteknum erindum. Hann er alltaf að svara fyrir hönd ráðherra eða í umboði ráðherra. Enginn tiltekinn starfsmaður tiltekins ráðuneytis hefur neitt umboð eða vald sérstaklega heldur sækja allir vald sitt til ráðherra og þess umboðs sem hann hefur þannig að þegar menn eru að svara þessum bréfum þá skiptir reyndar miklu máli hvert efni þessara bréfa er og hvernig menn taka á því, en þá er kjarninn að mínu viti sá að þessir tilteknu starfsmenn eru þá að svara í umboði ráðherra, enda er það yfirleitt þannig að menn svara fyrir hönd ráðherra o.s.frv. En tilteknir starfsmenn hafa ekkert sérstakt vald. Skrifstofustjórar hafa ekkert afmarkað vald. Venjulegir starfsmenn hafa ekkert afmarkað vald og ekki ráðuneytisstjórinn heldur, heldur fara allir þessir menn með vald sitt í umboði ráðherra og sækja umboð sitt þangað.

[16:00]

Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, við lestur frv. að maður hafi á tilfinningunni að einhvers misskilnings gæti í þessu vegna þess að verið er að fjalla um það að tiltekinn undirmaður geti gert yfirmann vanhæfan. Ég met það þannig og lít svo á og ber þá a.m.k. stjórnarskrána fyrir mig hvað það varðar að allir þessir starfsmenn starfi fyrir hönd ráðherrans, hver og einn einasti þannig að þeir koma fram fyrir hönd ráðherrans og þar af leiðandi ef ráðuneytið hefur tekið afstöðu, ég tala nú ekki um kveðið upp úrskurð eins og það hefur verið metið í þessu tilviki, þá tel ég ofureðlilegt að hann sé vanhæfur komi þetta mál á nýjan leik til ráðuneytisins. Ég átta mig satt best að segja ekki alveg á því hvað verið er að fara í þessu tilviki.

Hins vegar hef ég séð umburðarbréf það sem hæstv. forsrh. sendi út í kjölfar þessa dóms og ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst mjög skynsamlega og vel á málum tekið þar og hefði talið að það hefði dugað. En hér er ætlunin að ganga lengra og a.m.k. er komið fram hér í þinginu frv. þess efnis, eða kjarni þess er sá, að verði undirmaður vanhæfur til meðferðar máls verður næsti yfirmaður hans aftur á móti ekki vanhæfur til meðferðar þess af þeirri ástæðu.

Af því sem ég hef áður sagt og vitnað til niðurstöðu héraðsdóms sem er staðfestur í Hæstarétti, þá segir þar, með leyfi forseta:

,,Að mati dómsins skiptir því ekki máli um vanhæfi umhverfisráðherra til meðferðar kærumáls [stefnanda], hvort hann sjálfur eða einhverjir starfsmenn fyrir hans hönd undirrituðu umrætt bréf, þar sem álit ráðherra kom fram, eða aðrir starfsmenn en þeir, er undirrituðu bréfið, kváðu upp úrskurð í því á æðra stjórnsýslustigi.``

Það er því niðurstaða dómsins að hæstv. umhvrh. hafi með framangreindum hætti tekið afstöðu í máli stefnanda meðan mál hans var til meðferðar á lægra stjórnsýslustigi. Leiðir það til þess að umhvrh. var vanhæfur til meðferðar málsins á æðra stjórnsýslustigi, samanber meginreglu og er vitnað þar til stjórnsýslulaga. Er því þegar af þeirri ástæðu óhjákvæmilegt að fella úr gildi umræddan úrskurð stefnda frá 5. desember árið 2000.

Mér finnst því, virðulegi forseti, koma skýrt fram í þessu að valdi ráðherra verður ekki skipt upp á milli starfsmanna heldur komi menn fyrst og fremst fram fyrir hönd ráðuneytisins. Menn sækja umboð sitt til ráðherra en ekki einstakra starfsmanna og þegar starfsmenn hafa sent frá sér álit eða niðurstöðu, þá hljóta þeir að gera það í umboði ráðherra. Og því held ég að þessi umræða eða það er mitt mat, og hef nú kannski ekki legið yfir þessu sem skyldi, en við fyrstu sýn er það mitt mat að hér sé á ferðinni misskilningur að einhverju leyti í frv. Ég sit hins vegar í hv. allshn. og fæ því tækifæri til að fjalla um málið á síðari stigum, en ég get ekki séð annað við fyrstu sýn. Ég vil líka, virðulegi forseti, vekja athygli á því sem fram kemur í þeirri greinargerð sem hér fylgir að niðurstaða Hæstaréttar, þ.e. niðurstöður dómstóla, bæði undirréttar og Hæstaréttar, sé sérstaklega til þess fallin að kalla fram eitthvert sérstakt óöryggi á þessu sviði. Ég held að í gegnum tíðina hafi menn litið svo á að menn sæki umboð sitt til ráðherra, allir starfsmenn, og því eru ákvarðanir þeirra teknar í umboði ráðherra og þegar ein ákvörðun hefur verið tekin eða kveðinn upp úrskurður þá held ég að það í sjálfu sér leiði ekki til vanhæfis heldur hins fyrst og fremst að í þessu tilviki hafi menn skipt sér af úrskurði, af því að við erum að tala um tiltekinn dóm, menn höfðu kveðið upp úrskurð um mál sem var til meðferðar á lægra stjórnsýslustigi og því ofur eðlilegt að þegar málið kom þangað síðar, að þá væri viðkomandi ráðherra vanhæfur.