Eiturefni og hættuleg efni

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 19:51:16 (5940)

2002-03-11 19:51:16# 127. lþ. 94.12 fundur 587. mál: #A eiturefni og hættuleg efni# (EES-reglur, ósoneyðandi efni) frv. 68/2002, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[19:51]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir vænt um að heyra að hæstv. umhvrh. gerir sér grein fyrir því að við erum bara 280 þúsund. Maður gæti stundum haldið að stjórnvöld teldu Íslendinga vera 2,8 milljónir.

Varðandi það hversu illa gengur að halda dampi í að innleiða tilskipanirnar þá er það hárrétt sem hæstv. umhvrh. nefnir hér, að flestar af tilskipunum Evrópusambandsins eru á sviði umhvrn. Í því sambandi má geta þess að flestar af þeim tilskipunum sem umhvrn. hefur með að gera eru síðan meðhöndlaðar í Hollustuvernd. Af því hv. umhvn. hefur nýverið heimsótt Hollustuvernd ríkisins og séð þann aðbúnað sem fólkið sem þar starfar vinnur við þá verð ég að segja að það hefur unnið kraftaverk. Ég horfi bjartsýn fram á veginn til nýrrar og bættrar aðstöðu Hollustuverndarinnar og vona auðvitað að bætt verði úr í þeim efnum fyrr en seinna. Ég veit sem er að þessi málaflokkur um eiturefni og hættuleg efni er nokkuð sem starfsfólk Hollustuverndar vill gjarnan standa sig betur í en mögulegt hefur verið, bæði vegna þess hversu erfitt er að ljúka þýðingu og innleiðingu allra þessara reglugerða. Sömuleiðis hefur staðið á endurskoðun laganna.

Það sem hæstv. umhvrh. nefnir síðan í ræðu sinni er hún ber við önnum starfsfólks ráðuneytisins --- það er kannski kvikindislegt og ég vona að hæstv. forseti víti mig ekki fyrir að hafa orð á því --- er kannski tilefni til að við fáum að heyra hvenær ráðuneytið ætti möguleika á að skila okkur úrskurði í kærumálum vegna Reyðaráls. Það er náttúrlega skammarlegt að ráðuneytið skuli ekki geta staðið við lögbundna fresti í máli eftir máli af þessu tagi á meðan vesalings Skipulagsstofnun er stöðugt gert að standast lögbundinn frest.