Lyfjalög

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 20:38:51 (5956)

2002-03-11 20:38:51# 127. lþ. 94.15 fundur 601. mál: #A lyfjalög# (rekstur lyfjabúða o.fl.) frv. 63/2002, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[20:38]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Austurl. að það var þannig að lyfjabúðirnar hér skiptu á milli sín vöktum. Eins og ég sagði áðan, og endurtek ég það, þá höfum við fylgst með þessari þróun og við munum gera það áfram. Við höfum þegar kallað eftir upplýsingum um hvernig þessi mál hafa þróast á þessum tíma þegar lyfjaafgreiðsla er ekki fyrir hendi. Ég mun fylgjast grannt með þeim málum og ráðuneytið þannig að öryggi sé ekki fórnað í þessum efnum. Hins vegar er þetta auðvitað vandamál út á landsbyggðinni. Ég verð nú því miður að segja að ég er ekki alveg tilbúinn til að taka undir það með hv. 5. þm. Austurl. að þetta sé ekkert mál þar vegna þess að læknar afgreiði. Því miður eru ekki læknar í öllum byggðarlögum. Þetta er því vandi sem fólk á við að etja og hefur ekki sambærilegan aðgang í þessum efnum. En varðandi lyfjalöggjöfina yfirleitt er ég tilbúinn að skoða alla hluti sem stefna til aukins öryggis í lyfjamálum. Það er hlutverk okkar að gera það. Það er hlutverk Lyfjastofnunar, það er hlutverk landlæknis, sem okkar ráðgjafarstofnun og það er hlutverk ráðuneytisins að fylgjast grannt með þeim málum. Og ég er tilbúinn til þess.