Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 20:51:04 (5959)

2002-03-11 20:51:04# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[20:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er á nýjan leik tekið fyrir frv. til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins en frv. var á dagskrá fyrir helgi. Urðu þá allnokkrar og snarpar umræður um það og meðal annarra atriða sem upp komu þar var að vinnubrögð hæstv. iðn.- og viðskrh. í málinu voru gagnrýnd mjög.

Auðvitað er sú gagnrýni réttmæt, herra forseti, sem þá kom fram, þ.e. að verið sé að leggja fram frv. til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins áður en fyrir liggur hvernig ríkisstjórnin hyggst standa að mótun framtíðarstefnu í raforkumálum og nýskipan raforkumála.

Það vekur nokkra furðu, herra forseti, að ekki skuli vera komið fram hér á nýjan leik á Alþingi frv. til raforkulaga sem, ef ég man best, var lagt fram rétt áður en þingi lauk síðasta vor og mig minnir að ekki hafi einu sinni verið mælt fyrir því heldur hafi því einungis verið vísað til nefndar --- ég sé að hæstv. ráðherra kinkar kolli. Sú framtíðarstefna sem ríkisstjórnin vill sjá að því er varðar nýskipan orkumála er því alveg órædd hér í þingsölum og það hlýtur að vekja nokkra furðu að það frv. skuli ekki vera komið fram á þessu þingi, þó að ekki séu nema örfáar vikur til þingloka.

Auðvitað er það svo, herra forseti, að málin eru ekki tekin hér í réttri röð af hæstv. ráðherra og það mál hefði átt að ræða hér fyrst áður en tekið er til við að ræða frv. til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Vera má að einhver ágreiningur sé um það mál á milli stjórnarflokkanna og það sé e.t.v. skýringin á því að málið hafi ekki verið lagt fram og þyrfti það að koma nánar hér til umræðu áður en frv. sem hér er til umræðu verður sent til athugunar í nefnd.

Frv. til raforkulaga sem hæstv. ráðherra lagði fram á síðasta þingi fól í sér heildarendurskoðun á löggjöf um vinnslu, flutning, dreifingu og sölu raforku og þar kom einmitt fram að leggja átti fram frv. til laga um breytingu á ýmsum lögum á orkusviði sem gera þarf vegna þeirra breytinga sem voru lagðar til í frv.

Í greinargerð með því frv. kom fram að best væri að gera endurskipulagningu á raforkubúskapnum á núverandi grunni með markaðssjónarmið að leiðarljósi í vinnslu og sölu raforku. Og aðskilnaður samkeppnis- og einokunarþátta sé þá höfuðatriði í tengslum við slíkar skipulagsbreytingar og mæli jafnframt margt með því að hlutafélagsformið taki við af núverandi rekstrarformi. Vinnubrögðin eru því vissulega gagnrýnisverð.

Ef ræða á þetta frv. eitt og sér, fyrir utan það að ekki liggi fyrir heildarframtíðarstefnumótun í raforkumálum, þá er ýmislegt sem vekur upp miklar spurningar að því er þetta frv. varðar, herra forseti.

Fyrir helgina voru ræddar hér m.a. þær röksemdir sem hæstv. ráðherra teflir fram í greinargerð fyrir stofnun hlutafélags. Mér finnst það, herra forseti, ansi bíræfið af hæstv. ráðherra að tefla fram þeim röksemdum sem hér eru settar fram fyrir stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins í ljósi þess sem við höfum verið að ganga í gegnum í þjóðfélaginu almennt að því er varðar hlutafélagavæðingu ríkisstofnana og einkavæðingu og sölu á ríkisfyrirtækjum. En því er einmitt teflt fram sem fyrstu röksemd fyrir stofnun á hlutafélagi um Rafmagnsveitur ríkisins þegar verið er að telja upp hve skynsamlegt sé nú að fara þá leið, að þá er sagt hér, með leyfi forseta: ,,... hlutafélagsformið er mjög fastmótað og þrautreynt. Í löggjöf sem um það hefur verið sett er vel skilgreind verkaskipting milli hluthafa- og aðalfunda (þ.e. eigenda), stjórnar og framkvæmdastjórnar.``

Ljóst er og það þekkja allir sem hafa fylgst með þessum málum og vonandi hæstv. viðskrh. líka að í framkvæmd hefur ekki verið ,,vel skilgreind verkaskipting milli hluthafa- og aðalfunda (þ.e. eigenda), stjórnar og framkvæmdastjórnar.`` Ekki er hægt að selja okkur á þessum síðustu og verstu tímum slíka röksemd.

Herra forseti. Mér finnst, og ég ætla að koma að því strax, að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar geti varla leyft sér að koma hér til þings og biðja um heimild til hlutafélagavæðingar á ríkisfyrirtæki í ljósi þess hvernig ráðherrar haga sér gagnvart stjórnarskrárvörðum rétti þingmanna, sem er upplýsingaskylda framkvæmdarvaldsins til þingsins. Í mínum huga finnst mér málum vera svo komið, herra forseti, að í raun og sanni ættu þingmenn að manna sig upp í það að slá allri hlutafélagavæðingu á frest, hversu skynsamleg sem hún er, þangað til það er komið á hreint milli þingsins og framkvæmdarvaldsins hvernig upplýsingaskylda framkvæmdarvaldsins eigi að vera til þingsins vegna þess að það gengur ekki, herra forseti, öllu lengur að ráðherrar komist upp með það aftur og aftur, og viðskrh. ekkert síður en aðrir ráðherrar, m.a. að því er varðar bankana, að brjóta þennan stjórnarskrárvarða rétt á þingmönnum. Ég mun ekki standa að því, hversu skynsamlegt sem mér þykir þetta frv. vera, að samþykkja hlutafélagavæðingu á Rafmagnsveitum ríkisins sem hér eru á dagskrá, fyrr en þessi mál eru komin á hreint.

Mér finnst reyndar, herra forseti, standa upp á forsn. þingsins, og ég beini orðum mínum til forseta, að setjast yfir þetta mál og fá það í eitt skipti fyrir öll á hreint hvernig með þessi mál eigi að fara, þ.e. stjórnarskrárvarinn upplýsingarétt þingmanna.

Mér finnst það vissulega koma til greina, herra forseti, að setja sérstaka löggjöf um hlutafélög í ríkiseign þar sem tekið yrði með öðrum hætti á upplýsingaskyldu slíkra fyrirtækja, sem eru að fullu eða að meiri hluta í ríkiseign, að því er þennan rétt varðar.

[21:00]

Þetta er hefðbundin klásúla sem við fáum hér. Þetta er staðlað og gengur á milli ráðherranna. Síðast kom fram í svari við fyrirspurn minni frá hæstv. samgrh. að öll stjórnsýslutengsl milli ráðuneytisins og viðkomandi félags hafi rofnað og því sé ekki fært að veita þingmönnum þær upplýsingar sem eftir er kallað. Þetta er ekki boðlegt, herra forseti, ekki síst samkvæmt reynslunni af hlutafélagavæðingunni og það hvernig ráðherrar haga sér og ganga um þessi fyrirtæki eins og þeim hentar er ekki í samræmi við ákvæði hlutafélagalaganna, eins og hæstv. samgrh. hefur verið uppvís að. Stjórnsýslutengslin rofna þegar ráðherranum hentar að svara ekki þinginu. En hann hefur alla sína hentisemi með það að taka mál út úr fyrirtækinu þegar svo ber undir.

Herra forseti. Það er raunverulega mjög sérstakt hvernig þessir ráðherrar ganga um þessi fyrirtæki, ekki síst í ljósi þeirra frétta sem við vorum t.d. að heyra í kvöld. Ég er aldeilis agndofa yfir þeim fréttum sem koma hér af aðalfundi hjá Símanum þar sem hæstv. ráðherrann skaut sig endanlega í fótinn. Það lýsir auðvitað engu öðru en veruleikafirringu og algjöru dómgreindarleysi að hæstv. samgrh. sem fer þarna með eigendaréttinn, 95% eða 98% í félaginu, skuli leyfa sér eftir allt sem á undan er gengið að leggja til á þessum aðalfundi að meira en tvöfalda --- meira en tvöfalda --- laun stjórnarmanna, hækka þau úr 65.000 kr. í 150.000 fyrir venjulegan stjórnarmann og úr 130.000 í 300.000 fyrir formanninn. Ég horfi á hæstv. viðskrh. vegna þess að þetta setur allt málið í það ljós að það veldur mikilli tortryggni að vera að afhenda ráðherrum slíka heimild sem þeir kunna ekki með að fara. Auðvitað kunna þeir ekki með hana að fara þegar þeir verða uppvísir að því að leggja til, eins og hæstv. samgrh. gerði greinilega á þessum aðalfundi, að tvöfalda laun stjórnarmanna. Það lýsir algjöru dómgreindarleysi og veruleikafirringu. Við erum kannski að tala um að hjá svona félagi eins og Símanum séu tveir stjórnarfundir í mánuði. Fær þá stjórnarformaðurinn 150.000 kr. fyrir hvorn fund og venjulegur stjórnarmaður 75.000? Við erum að tala um að venjulegur stjórnarmaður gæti hirt á einum slíkum tveggja tíma fundi nálægt einum lágmarkslaunum verkafólks í landinu.

Það er auðvitað ekki skrýtið að menn stoppi við það, herra forseti, að ráðherrunum sé ekki treystandi fyrir svona heimild sem þeir eru að kalla eftir frá þinginu. Ég hlustaði á nýskipaðan formann stjórnar í fréttunum í kvöld, í Kastljósi, og ekki var að heyra á þeim nýskipaða stjórnarformanni að hún hefði verið að kalla eftir þessum stjórnarlaunum eða gert þau að skilyrði fyrir því að hún tæki það sæti. Það var ekki annað á stjórnarformanninum nýskipaða að heyra, sem ég óska nú allrar velgengni í störfum, en að henni hafi hreinlega verið boðið þetta. Það þarf að upplýsast, herra forseti, hvort þetta hafi verið gert með vitund og vilja t.d. forsrh. eða annarra ráðherra.

Herra forseti. Það er þetta sem setur málið sem hæstv. iðnrh. kemur hér með inn í þingið í allt annað ljós og gerir þá kröfu sem ég er að setja hér fram enn háværari og sterkari, þ.e. að ráðherrar munu ekki fyrir minn atbeina a.m.k. verða studdir í því að fá heimild hér til að setja á stofn hlutafélög um ríkisrekstur fyrr en upplýsingaskylda til þingmanna er komin á hreint. Þetta vil ég að liggi klárt og kvitt fyrir, herra forseti, af minni hálfu að því er þennan þátt varðar.

Ég vil spyrja um nokkur atriði í tengslum við þetta frv. sem í fyrsta lagi ætti ekki að afgreiða af því það vantar þessa nýskipun eða framtíðarstefnumótun í raforkumálum sem við erum að kalla eftir og í annan stað vegna þess sem ég nefndi, að það vantar hreinlega að fá botn og niðurstöðu í upplýsingarétt þingmanna. Þó vil ég engu að síður ræða nokkur atriði sem tengjast þessu frv. við hæstv. ráðherra og spyrja hana um.

Það er í fyrsta lagi að því er varðar 3. gr. frv. þar sem segir að iðnrh. fari með eignarhlut ríkisins í hlutafélaginu. Herra forseti. Ég spyr: Getur hæstv. iðnrh. ekki verið sammála því, og tekið undir með hæstv. samgrh., að hæstv. fjmrh. eigi að fara með eignarhlut ríkisins í þessu fyrirtæki? Ég minni á það að þingmenn Samfylkingarinnar lögðu þetta til á síðasta þingi og þessu. Hér liggur fyrir frv. um að fjmrh. eigi að fara með hlutabréfið í því fyrirtæki sem Landssíminn er og eins varðandi bankana. Þetta hafa þingmenn Samfylkingarinnar lagt til. Mér finnst liggja algjörlega beint við að fjmrh. eigi líka að fara með eignarhlut ríkisins í því hlutafélagi sem við fjöllum um hér.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort og þá hvernig þetta frv. hafi verið unnið að því er varðar starfsmennina sem hjá þessu fyrirtæki vinna. Var það unnið í samráði við starfsmennina?

Ég tek eftir því að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. er talað um að allur kostnaður af stofnun hlutafélagsins og yfirtöku á öðrum rekstri sé greiddur af félaginu, þar með taldar hugsanlegar biðlaunagreiðslur. Ég stoppa við það hvers vegna sérstaklega verið er að taka þarna fram biðlaunagreiðslur. Ástæða er til þess að fá það fram hvort og með hvaða hætti þetta frv. hafi verið unnið í samráði við starfsmennina.

Ég vil líka spyrja um það sem fram kemur í 3. gr. frv. og í því sem sagt er um 3. greinina. Þar kemur fram að ekki komi til sölu á hlutum ríkisins í hlutafélaginu nema með sérstakri heimild Alþingis. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hugsanlegt sé að það muni teljast nægjanlegt að koma með slíka heimild eða kalla eftir henni í gegnum fjárlagafrv. Eða mun ráðherra sjá til þess, ef til þess kemur að menn vilja selja hlut í þessu fyrirtæki eins og verið er að gera skóna í 4. tölul. greinargerðarinnar þar sem taldar eru upp röksemdirnar fyrir að stofna þetta hlutafélag, að það verði gert með sérstöku frv. frá Alþingi? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki liggi alveg klárt og kvitt fyrir að það verði ekki gert á einhvern einfaldan hátt gegnum fjárlagafrv., heldur að það verði gert með fullboðlegu frv. sérstaklega um það mál, komi til þess. Í 4. tölul. stendur:

,,Vilji ríkissjóður ekki leggja fram aukið hlutafé til að halda eiginfjárhlutfallinu í horfinu þegar kemur til þess að fjármagna þarf nýja fjárfestingu er unnt að leita eftir nýjum hluthöfum sem færa með sér nýtt hlutafé.``

Um þetta er líka spurt, herra forseti, og í lokin, af því að ég sé að tími minn er að verða búinn, þá spyr ég um arðsemina. Það er athyglisvert sem fram kemur í athugasemdum við 6. gr. frv. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Í greininni er kveðið á um að stjórn hlutafélagsins skuli setja gjaldskrá fyrir félagið og lagt til að við gerð gjaldskrár skuli gætt almennra arðsemissjónarmiða.``

Það er tekið fram: ,,arðsemissjónarmiða``. Þau eiga greinilega að hafa forgang. En ég spyr: Hvað með raforku til almenningsveitna? Hvað með raforkuverð til almennings? Á það engan forgang að hafa eða hvaða vægi hefur það að því er varðar rekstur á slíku félagi?

Herra forseti. Tími minn er að verða búinn. Eins og ég segi þá kemur að mínu viti ekki til greina, hversu skynsamlegt sem þetta mál er, að veita því brautargengi í gegnum þingið eða standa að því að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag fyrr en fyrir liggur hvernig háttað er stjórnarskrárvörðum rétti þingmanna til að leita upplýsinga hjá framkvæmdarvaldinu að því er varðar fyrirtæki í ríkiseign. Það er orðið svo mikið forgangsverkefni hér í þinginu, herra forseti, að ég skora á forseta þingsins að beita sér fyrir því að slíkt sé gert þannig að mál geti fengið eðlilegan framgang, eins og hér er verið að tala um, án þess að það þurfi að þvælast fyrir.