Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins

Mánudaginn 11. mars 2002, kl. 22:25:38 (5992)

2002-03-11 22:25:38# 127. lþ. 94.17 fundur 545. mál: #A stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 127. lþ.

[22:25]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gat ekki heyrt að hæstv. ráðherra segði neitt í raun um heildarstefnu í þessum málum, nákvæmlega ekki neitt. Mér finnst alveg ótrúlegt að boðið skuli upp á slíkan málflutning hér. Auðvitað er ekki boðlegt að menn skuli ekki vilja tala um það sem skiptir máli þegar verið er að fjalla um frv. af þessu tagi. Það að þetta frv. tengist ekki öðrum málum er hvílík della. Við höfum fylgst með því að sveitarstjórnarmenn í landinu t.d. hafa farið fram á að eignarhald sveitarfélaganna kæmi til gagnvart Rarik og fært fyrir því rök. Hæstv. ráðherra lætur ekki svo lítið að fara yfir það.

Fleiri en einn þingmaður á Alþingi hefur fært fyrir því rök líka að taka þurfi eignarhald Landsvirkjunar til endurskoðunar og að annað sé óboðlegt en að fyrir liggi einhver stefna um hvernig eignarhaldi verði háttað á þeim raforkufyrirtækjum sem eiga að taka þátt í þeirri samkeppni sem menn telja sig vera að búa til í þessum málum öllum saman. Hæstv. ráðherra fer engum orðum um þessa hluti.

Hæstv. ráðherra þarf líka í ljósi síðustu frétta að segja frá stefnu sinni hvað varðar stjórnarlaun. Hvað ætlar hún að leggja til á næsta aðalfundi Rariks að menn eigi að fá í laun fyrir að taka þátt í að stjórna því fyrirtæki? Mér finnst líka full ástæða til þess að spyrja betur um það.

Hæstv. ráðherra kvartar yfir því að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hafi farið fram á of mikið af upplýsingum. Hafa menn séð og farið yfir það hvaða svör hafa fengist við spurningum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem því er bara svarað til að ekki séu efni til þess og ekki megi segja frá því sem um er spurt?