Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 13:32:23 (6005)

2002-03-12 13:32:23# 127. lþ. 95.91 fundur 394#B greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (aths. um störf þingsins), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[13:32]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel afar brýnt að svarað verði án tafar hvernig stjórnvöld ætla að leysa hinn mikla vanda Greiningarstöðvar ríkisins. Um 100 börn eru nú á biðlista eftir þjónustu og börn á grunnskólaaldri þurfa að bíða á annað ár til að fá þjónustu stöðvarinnar. Í þessum hópi eru yfir 50 einhverf börn, um 50--60 með alvarlega þroskahömlun á grunnskólaaldri en skóla- og félagsmálayfirvöld í sveitarstjórnum hafa alvarlegar áhyggjur af þessari þróun. Það er verið að brjóta skýlausan rétt á fötluðum börnum til þjónustu sem þau eiga að fá bæði samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og lögum um málefni fatlaðra. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur að einhverf börn fái ekki nauðsynleg lyf vegna skorts á ítarlegri greiningu eins og t.d. kom fram í Fréttablaðinu í gær.

Það er ljóst, herra forseti, að afleiðingarnar eru hræðilegar fyrir margar fjölskyldur verði ekki þegar í stað gripið á þessum vanda. Ábyrgð ráðamanna er mikil og þung í þessu máli. Það er til hreinnar skammar fyrir yfirvöld og hreinlega hættulegt að auka svo á vanda fjölskyldna einhverfra og þroskaheftra barna sem þurfa á þjónustu Greiningarstöðvarinnar að halda. Vandi þessara barna og fjölskyldna þeirra er ærinn fyrir.

Herra forseti. Það kostar engin ósköp að leysa þennan vanda. Það kostar 10--20 millj. að leysa bráðasta vandann, herra forseti. Því spyr ég nú starfandi félmrh. hvort stjórnvöld muni ekki fara tafarlaust í það að leysa þennan vanda vegna þess að það er til háborinnar skammar fyrir stjórnvöld að leysa hann ekki þegar.