Ástandið á spítölunum

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 14:29:10 (6026)

2002-03-12 14:29:10# 127. lþ. 95.94 fundur 397#B ástandið á spítölunum# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[14:29]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil taka fram í upphafi að ég tel alla umræðu af hinu góða. Ég er óhræddur við að taka hana, ég er óhræddur við að gefa skýrslu um þá stefnumótun sem er í heilbrigðisþjónustunni. Ég er alveg fullkomlega til í það.

Varðandi það hvort ástandið muni batna, hvort þetta muni haldast í 8--10 mánuði, þá er stöðugt verið að vinna að úrbótum þarna og sameiningarferlið náði í rauninni hámarki núna á síðustu vikum. Mér finnst hv. þm. stundum tala eins og ekkert hafi gerst. Talað var um biðlista. Það er nýbúið að setja 80 millj. í að stytta biðlista og Landspítali -- háskólasjúkrahús fær yfir 50 millj. af þeirri upphæð. Það er nýbúið að ákveða að hverfa frá 800 millj. kr. sparnaðarkröfu vegna sameiningarinnar og fara yfir sameiningarmálin aftur seinna á árinu og láta staðar numið við 400 millj. Þetta var í fréttum núna ekki alls fyrir löngu. Ég vil biðja hv. þingmenn að halda því til haga að það er stöðugt verið að vinna að þessum málum.

Ég hafna því að sameiningin hafi mistekist. Það er algerlega á skjön við þær viðræður sem ég hef átt við fjölda fólks á spítalanum og m.a. við fagfólk sem var á móti sameiningunni á sínum tíma, það segir nú að sameiningin skili miklu sterkari deildum en áður voru. Ég vil biðja hv. þingmenn að varast slíka umræðu. En ég vil vinna af fullum krafti að þessu vandamáli sem ég nefndi í inngangsræðunni en það er fráflæðisvandamálið á spítölunum og skorturinn á hjúkrunarrými.

Varðandi sjúkrahótelið þá vinnum við að því að tryggja þar 40 rými. Við vinnum að áætlunum um Vífilsstaði. Það liggur ekki fyrir ákvörðun í því máli en unnið er að því hver verður framtíð Vífilsstaða.