Afréttamálefni, fjallskil o.fl.

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 16:39:30 (6061)

2002-03-12 16:39:30# 127. lþ. 95.11 fundur 593. mál: #A afréttamálefni, fjallskil o.fl.# (ítala o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[16:39]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Við þetta frv. til laga um breytingu á lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., með síðari breytingum, sem hér hefur verið mælt fyrir, og umræður um það hef ég í sjálfu sér ekki miklu að bæta. Þó vil ég tjá mig um 2. gr. frv. þar sem lagt er til að í stað orðanna ,,Landgræðsla Íslands`` komi orðið Landgræðslan. Mér finnst ágætt að hafa orðið Landgræðsla Íslands eða Landgræðsla ríkisins eins og var áður þannig að það sé alveg ótvírætt verkefni á ábyrgð þjóðarinnar allrar, landgræðslan. Þegar verið er að klippa af þessu nafni, stýfa það með því að taka Ísland úr heitinu, Landgræðsla Íslands, og í staðinn komi bara Landgræðslan, finnst mér að staða hennar innan samfélagsins sé veikt. Í nafninu Landgræðsla Íslands sem áður var Landgræðsla ríkisins er svo klár skírskotun í að þetta viðfangsefni er á ábyrgð þjóðarinnar og að ekki er ætlunin að einkavæða eða selja það. Þegar Ísland er tekið úr heitinu og stofnunin kölluð bara Landgræðslan er þeirri hættu boðið heim að hugtakið hafi ekki sama sess og áður var í huga þjóðarinnar. Kannski verður þessi mikilvæga starfsemi síðar meir ekki í sama mæli á ábyrgð þjóðarinnar og nú er. Þess vegna er ég andvígur tilhneigingunni sem þarna er dregin fram í nafngiftinni, að vera að stýfa hana og fjarlægja undan ábyrgð og skyldum þjóðarinnar.

Ég vil síðan aðeins örstutt víkja að 3. gr. þessa nýja frv. þar sem kveðið er á um auknar skyldur sveitarstjórna þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Sveitarstjórnum er skylt að fylgjast með ástandi gróðurs og jarðvegs á afréttum og heimalöndum og skulu þær hafa um það samráð við Landgræðsluna.`` Síðan eru talin upp allmörg verkefni og áhersluverkefni sem sveitarstjórnir eiga að hafa eftirlit með og bera ábyrgð á. Það er alveg ljóst að þessum auknu verkefnum fylgir kostnaður, tvímælalaust. Það er vandi með að fara þegar lög eru samþykkt á Alþingi --- þótt margt gott megi segja um meiningu þeirra --- ef þau fela í sér auknar fjárhagslegar kvaðir á þriðja aðila eins og í þessu tilviki á sveitarfélögin. Alþingi getur auðveldlega samþykkt lög og kveðið á um auknar kvaðir, skuldbindingar og kostnaðarhlutdeild sem Alþingi ber þá sjálft ábyrgð á og ríkissjóður, en það er vandasamara þegar lög eru sett sem færa ábyrgð yfir á annan opinberan aðila sem ekki getur komið að þeirri lagasetningu. Ég hygg að mörgum sveitarstjórnum finnist það orðinn ærinn kostnaður og ábyrgð sem þær hafa af þessum verkefnum. Það er þá spurt hvort ríkissjóður eigi ekki að koma með sérstökum hætti inn í þessa vörslu og eftirlitið til að varpa þessu ekki nánast einhliða yfir á sveitarstjórnirnar. Ég vildi varpa þessari skoðun inn í umræðuna.

Auk þess fer ekki hjá því að manni verði hugsað til annarra auðlinda en bara þeirra sem eru á landi. Hér er skýrt kveðið á um að viðkomandi sveitarstjórnir skuli bera mikla ábyrgð og hafa mjög náið eftirlit með nýtingu auðlindanna á landi hvað varðar grasnytjar, beit og meðferð og verndun þessara auðlinda. Það er í sjálfu sér vel að heimaaðilar beri þessa ábyrgð. En hvers vegna er það þá ekki líka sett inn að sveitarstjórnirnar beri hliðstæða ábyrgð og ráðstöfun á nýtingu auðlindanna meðfram ströndum landsins? Hvers vegna er þá allt í einu annar lagabálkur og allt annað fyrirkomulag? Auðlindirnar meðfram ströndum landsins eru jafndýrmætar hvað varðar nýtingu, umhverfisvernd og verndun og meðferð þessara náttúruauðlinda, eru alveg jafndýrmætar þeim íbúum sem þar búa og þessar auðlindir á landi. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. landbrh. hvort honum finnist ekki verulegt ósamræmi í þessu, að auðlindirnar meðfram ströndum landsins lúti allt annarri forsjá en sveitarstjórnanna. En auðlindirnar á landi eru rækilega tíundaðar á ábyrgð viðkomandi sveitarstjórna og viðkomandi íbúa sem mér finnst vel. Væri ekki ráð að hæstv. ráðherra beitti sér í þessa veruna og færði ráðstöfun á auðlindum sjávarins og auðlindunum meðfram ströndum landsins, á strandmiðunum og strandgrunninu, undir sveitarstjórnirnar og undir heimafólk með líkum hætti og hér er gert með auðlindir á landi? Ég held að það væri ein sterkasta og besta búsetuaðgerðin sem stjórnvöld gætu gert auk þess sem það mundi í miklu ríkara mæli tryggja vernd og skynsamlega og sjálfbæra nýtingu auðlindanna meðfram ströndum landsins.

Ég vil láta það vera mín síðustu orð, virðulegi forseti, í þessari umræðu að eitthvert brýnasta verkefni í meðferð á náttúruauðlindum okkar er að meðferð þeirra, nýting, verndun og ræktun verði sjálfbær á ábyrgð þess fólks sem býr við þær auðlindir, og það á að gilda jafnt á landi sem meðfram ströndum landsins. Ég skora á hæstv. landbrh. að beita sér í þeim efnum.