Búnaðargjald

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 17:45:29 (6075)

2002-03-12 17:45:29# 127. lþ. 95.12 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[17:45]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil svara hv. þm. hreint út. Ég treysti mér ekki til að draga hér upp úr hatti mínum þær tölur, en það liggur auðvitað allt hreint fyrir hvaða gjöld þetta eru. Þetta hefur nú verið skorið mikið niður á síðustu árum og þessar tölur hafa lækkað. Auðvitað finnst mönnum þær of háar og vega þungt í kannski lélegri afkomu búsins að þurfa að borga svo mikið til þjónustugjalda. Ég tek því undir það með hv. þm. að á hverjum tíma þurfa menn að fara yfir þetta og reyna að hafa það í eins miklu hófi og hægt er. Þó vil ég samt minna á að félagshyggja er mikilvæg og samstaða bændanna og að þeir standi saman og komi saman að ákveðnum málum hvort sem það snýr að ráðgjöf, að því að jafna út einhverja flutninga eða að sameiginlegu átaki, kannski því að rétta unga fólkinu sem vill setjast að í sveitinni hjálparhönd, t.d. með sterkum Lánasjóði landbúnaðarins. Það er lífgjafi sem hjálpar mönnum til að takast á við að byggja upp bú sín og er það mikilvægt. En því miður hef ég ekki, hv. þm., þessar tölur hér og vil ekki fara með rangt mál í þeim efnum þannig að við verðum að gera það í annan tíma og betri að fara yfir þau mál.