Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:41:37 (6094)

2002-03-12 18:41:37# 127. lþ. 95.16 fundur 575. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (fiskiskip, varðskip, skemmtibátar o.fl.) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:41]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tel það afar mikilvægt sem kom fram í lok ræðu hæstv. samgrh. Ég vona að sem mesta sátt hafi náðst milli stéttarfélaganna um þetta mál.

Í umsögnum sem nefndinni bárust þegar þetta frv. var fyrst lagt fram, vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki í annað, heldur í þriðja skiptið sem við fjöllum efnislega um þetta, gagnrýndu stéttarfélögin þetta mjög harkalega. Auk þess kom fram sú gagnrýni að með þessu frv. væri verið að takmarka atvinnufrelsi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. Viðbrögðin þeirra voru mjög hörð eins og ég sagði áðan. Þess vegna vildi ég fá fram strax við 1. umr. þessa máls hvort þessir óformlegu fundir, sem getið er um í bréfi samgrh. hæstv. til samgn. í fyrra, hafi leitt til viðunandi lausnar. Ég fagna því ef svo er og segi: Það er ákaflega mikilvægt þegar menn stíga þau skref sem boðuð eru í þessu frv., sem ég ætla ekki að úttala mig um á þessu stigi málsins, að gengið sé eins langt eins og hægt er til að ná fullri sátt við viðkomandi stéttarfélög um þær breytingar sem hér hafa verið gerðar.

Ég mun síðar í ræðu minni koma að þeim viðvörunarorðum sem hv. samgöngunefndarmenn hafa fengið í fjölmörgum bréfum sem þeim bárust í fyrra, t.d. frá vélstjórnarmönnum, um að þarna væri gengið allt of langt.