Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 18:43:47 (6095)

2002-03-12 18:43:47# 127. lþ. 95.16 fundur 575. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (fiskiskip, varðskip, skemmtibátar o.fl.) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[18:43]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Í framhaldi af þessu stutta andsvari mínu við ræðu hæstv. ráðherra um frv. sem hann hefur fylgt úr hlaði bendi ég á að eins og hér hefur komið fram er að megninu verið að boða það sem tekið var út úr frv. hætsv. ráðherra á síðasta löggjafarþingi, 126. löggjafarþingi. Þar var tekið út það sem ég gat um áðan í andsvari. Menn töldu að þær breytingar sem boðaðar höfðu verið hefðu mjög óheppileg áhrif á þá miklu kjaradeilu sem stóð um þær mundir milli sjómanna og útvegsmanna. Þessum ákvæðum var því skipt út.

Ég fletti upp í gögnum frá því málið var til umræðu síðast en þá barst okkur í samgn. skrautritað og gott blað þar sem gerðar voru ýmsar breytingar á frv. sem flutt hafði verið í upphafi þings um áhafnir íslenskra skipa. Þær breytingar sem þar átti að gera voru töluvert miklar. Mér sýnist efnislega að hér sé verið að taka þær inn að stórum hluta.

Auðvitað er það eins með ákvæðin varðandi þessa samþykkt á STCW og í fyrra. Menn voru sammála um þau í fyrra, sérstaklega vegna flutningaskipanna og farþegaskipanna, þ.e. að íslenskir sjómenn með þessi réttindi ættu ekki á hættu að verða stoppaðir í erlendum höfnum vegna þess að við værum ekki búin að staðfesta þetta. Það gekk sem sagt tiltölulega greitt í gegn að því er mig minnir.

[18:45]

Hins vegar staldra ég við þær breytingar sem hér eru boðaðar, t.d. á bls. 3, í 8. gr. frv. held ég að ég fari rétt með, í b-lið um lágmarksfjölda skipstjórnarmanna á fiskiskipum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Sérhvert íslenskt fiskiskip skal svo mannað að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafnar og skips og að framfylgt sé öllum lögum og reglum um verndun umhverfis og þá sérstaklega reglum er varða mengunarvarnir sjávar og lífríkis.``

Það er sérstaklega fyrri hlutinn sem ég stoppa við um að sérhvert íslenskt fiskiskip skuli svo mannað að unnt sé að sinna öllum þáttum sem tryggja öryggi áhafnar og skips. Þá er spurning mín til hæstv. ráðherra: Hver á að meta þetta? Hverjir eru betur færir til þess að meta þetta en sjómennirnir sjálfir, skipstjórar og vélstjórar? Og kem ég kannski síðar að þeim aðvörunarorðum sem hafa beinst til okkar frá t.d. vélstjórum.

Mér finnst, eins og kom fram í framsöguerindi hæstv. ráðherra, Siglingastofnun fá ansi mikið vald til þess að vega þetta og meta. Ég spyr hvort það sé heppilegasta leiðin, hvort það séu ekki einmitt skipstjórnarmenn og vélstjórnarmenn sem þurfa að vega þetta og meta og hvort Siglingastofnun sé best til þess fallin og hinir aðilarnir hafi ekkert um það að segja. Það er nefnilega svo eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra, um 8. gr., að þar eru boðaðar breytingar sem munu fækka stýrimönnum og vélstjórum. Ég hygg að það sé þar sem mesti ágreiningurinn var á sínum tíma sem ég gat um í upphafi, en tek að sjálfsögðu undir og fagna því heils hugar ef það mun koma í ljós þegar nefndin fær þá fulltrúa frá þeim stéttarfélögum til sín, að þeir séu orðnir sammála því, þá fagna ég því ef svo er og vona innilega að tíminn hafi þá leitt það í ljós miðað við það sem ég sagði áðan og miðað við það sem kom fram áðan þar sem fjallað var um beiðni samgrh. um að þetta yrði tekið út úr frv. í fyrra meðan kjaradeilan stóð yfir var vegna þess að talið var að þessi ákvæði hefðu óheppileg áhrif þar á.

Eins og ég sagði áðan hafa ýmsir vélstjórar á fiskiskipum sent samgn. bréf og útskýrt mál sitt. Það á bæði við þegar málið var lagt fram í byrjun og eins þegar það nálgaðist núna. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Starf vélstjóra hefur í gegnum árin tekið miklum breytingum sem allar lúta að því að auka vinnu þeirra. Meiri tækni um borð í skipum leiðir ekki aðeins af sér aukin afköst heldur líka meiri og flóknari búnað sem vélstjórum er ætlað að sinna. Hefðbundin vélstjórastörf, þ.e. eftirlit og viðhald á vélum skipa, hefur að sjálfsögðu ekki minnkað með árunum en er samt sem áður varla helmingur af því sem vélstjórar á fiskiskipum þurfa að sinna í dag. Allur búnaður tengdur vinnslu á fiski þarfnast mikils eftirlits og viðhalds og sú vinna mæðir að mestum hluta á vélstjórum skipanna.

Eins og flestum er kunnugt fylgir hverjum frystitogara sams konar og ekki minni búnaður og er í hverju meðalfrystihúsi. Frystikerfi, frystitæki, fiskvinnsluvélar, flokkarar, rafmagnskerfi, glussakerfi, ótal færibönd, sjó- og vatnslagnir ásamt mörgu fleiru eru í stanslausri notkun allan sólarhringinn meðan á veiðiferð stendur. Ekkert af þessu má stöðvast ef nást á að vinna þann afla sem um borð berst og kemur það í hlut vélstjóra að sjá um að halda búnaðinum gangandi.``

Síðan er farið yfir þetta og þeir leggja það mat á eftir áratuga störf að þessi vinna hafi ekki minnkað heldur aukist þrátt fyrir mikla tækni. Menn spyrja hvað gerist ef aðeins tveir vélstjórar eru um borð og annar vélstjóri veikist og miðað við það að þetta eru þvílíkar verksmiðjur sem keyrðar eru allan sólarhringinn, hvar erum við þá stödd? Þetta verður vafalaust eitt af þeim atriðum sem verður farið vel yfir í hv. samgn. þegar málið kemur þangað og rætt við þessa hagsmunaaðila.

Ég vil taka það skýrt fram, herra forseti, eins og ég sagði áðan, að ég tel það afar mikilvægt og mundi telja það mjög gott og málinu til framdráttar ef það er þannig að seinkunin, þessi bið og þessi frestun sem ég hef gert að umtalsefni hefur gert það að verkum að stéttarfélög sjómanna eru orðin sammála þessum atriðum.

Herra forseti. Það er kannski ekki mjög margt fleira sem ég vildi ræða við 1. umr. en ítreka það og segi sem var kannski aðalatriðið í frv. í fyrra og að hluta til núna, þ.e. samþykktin á alþjóðareglum STCW, þá er það stærsti hlutinn af þessu eins og það var í fyrra, en við mönnunarþáttinn sem hér er boðaður í 8. gr. hef ég ákveðinn fyrirvara.

Jafnframt vil ég nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra út í 2. gr. þar sem skilgreining er varðandi orðaskýringar. Þarna eru tekin inn fiskiskip, skemmtiferðaskip og önnur skip og ég man eftir því í lögunum sem við samþykktum í fyrra að þar var tekið inn í ýmislegt annað eins og varðskip o.fl., og hvernig þetta var allt saman í þeim. Ég vil því spyrja um það sérstaklega hvort ástæða væri til að hafa eitthvað sérstakt þarna um björgunarskip. Á síðasta fundi samgn. var einmitt rætt um það, þegar verið var að ræða um björgun sjómanna úr sjávarháska og um nokkur slys sem hafa orðið upp á síðkastið, sjóslys, að þá kom m.a. fram í orðum formanns Landsbjargar að mig minnir, að getið var um það að á landinu núna eru níu sérútbúin björgunarskip sem keypt hafa verið af Landsbjörg frá Þýskalandi. Ég vil aðeins spyrja um það í lokin hvort til greina hafi komið að hafa einhver sérstök ákvæði um þessa björgunarbáta eða hvort það falli hreinlega inn í það sem hér er talið upp. Ég spyr af því að varðskip er tekið fyrir sérstaklega og skemmtibátar eru teknir sérstaklega og önnur skip og fiskiskip o.s.frv., hvort ástæða hefði verið til að skilgreina eitthvað frekar björgunarbátana sem eru mjög sérútbúin skip.