Áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa

Þriðjudaginn 12. mars 2002, kl. 19:11:07 (6097)

2002-03-12 19:11:07# 127. lþ. 95.16 fundur 575. mál: #A áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa# (fiskiskip, varðskip, skemmtibátar o.fl.) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 127. lþ.

[19:11]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frv. til laga um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa hefur komið fyrir Alþingi á undanförnum tveimur eða þremur þingum. Eins og hér hefur verið gerð grein fyrir var hluti þess afgreiddur á síðasta þingi, þ.e. sem sneri að þessum þætti, en hluti var kallaður til baka. Þau ákvæði sem hér er fjallað um snerta að sjálfsögðu kjaramál viðkomandi stétta. Því er afar eðlilegt og nauðsynlegt að þessi frv. og þær breytingar sem hugsanlega verða gerðar á gildandi lögum verði unnar í nánu samráði við viðkomandi stéttir og starfshópa.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar þegar hann sagði í lok ágætrar ræðu sinnar að kröfur um öryggi færu vaxandi á sjó sem og annars staðar. Okkur ber að stefna að kröfum um aukið öryggi. Stöðugt koma upp nýjar kröfur. Hv. þm. nefndi einmitt umhverfiskröfur og umgengni við hafið og auðlindir þess. Út af þessum tvennum sjónarmiðum er hvorki ástæða til þess að draga úr menntunarkröfum, færniskröfum né mönnunarkröfum. Ég tjái það sem mína skoðun og vara við tilburðum í þá átt að draga úr kröfum um mönnun, öryggi, þekkingu í skipstjórn og meðferð skipa, hvort heldur þau eru á fiskveiðum, í farþegaflutningum eða vöruflutningum. Menn þurfa að gæta sín á því að þetta frv. miði ekki að því.

[19:15]

Það er svo freistandi að keyra niður kostnað. Sá skammtímaávinningur er svo freistandi sem menn sjá í að keyra niður kostnað með því að slaka á mönnunarkröfum, öryggiskröfum og menntunarkröfum, en hann getur síðan orðið dýrkeyptur þegar á reynir. Við þekkjum þann þrýsting sem hefur verið beitt til að fækka ábyrgðarmönnum, yfirmönnum og kunnáttumönnum á skipum. Ég vil líka, eins og aðrir hv. þm. í umræðunum, vekja athygli á þætti Siglingastofnunar Íslands sem á að fá það hlutverk samkvæmt frv. að skera úr um undanþágur frá lágmarksfjölda stýrimanna á fiskiskipum og lágmarksmönnun fyrir þau og gefa út öryggisskírteini, þar sem kveðið er á um lágmarksfjölda stýrimanna í áhöfn og skírteini fyrir einstakar stöður, eins og segir í lagagreininni.

Ég skil ekki alveg þessa nálgun málsins. Er verið að segja að Siglingastofnun verði að meta það þannig að sami bátur geti undir einhverjum kringumstæðum þurft að undirgangast eina mönnunarkröfu af hálfu Siglingastofnunar en svo við einhverjar aðrar aðstæður einhverja aðra mönnunarkröfu? Hvernig er ætlunin að beita þessu ákvæði? Getur bátur átt á hættu að til þeirra verkefna sem hann er að fara í á morgun þurfi hann að geta fengið undanþágu frá stífari ákvæðum laganna en svo til þeirra verkefna sem hann fer hinn daginn þá fái hann ekki undanþáguna?

Mér finnst það mjög hæpin nálgun á útfærslu þessara ákvæða að fela svona mikilvægar heimildir í hendur stofnunar frekar en að binda það bara í lög að bátum af ákveðinni stærð eða bátum með ákveðnum stærðum af vélum eða með ákveðnum útbúnaði sé skylt að vera með ákveðna mönnun. Þetta er gríðarleg ábyrgð stofnunar og þar er ekki öfundsvert að fara með þá ábyrgð í vafatilvikum. Þetta mál kemur að sjálfsögðu til umfjöllunar og meðferðar í hv. samgn. þar sem ég sit.

Ég vil bara spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða rök hafa leitt til þeirrar framsetningar og tillögugerðar sem þarna birtist og hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að þessu verði beitt? Mér er ekki ljóst hvernig á að beita þessu. Er það t.d. þannig að eitt skip hafi undanþágu en að annað við hliðina sé ekki með undanþágu þó það sé af líkri stærð? Ég vil að menn gæti sín á hvaða braut er verið að fara við að slá af kröfum í öryggismálum og þekkingarmálum þeirra sem málið varðar, því öll hljótum við að hafa þá stefnu að fyllsta öryggis sé gætt og auk þess að vinnuálag sé hæfilegt og að ekki sé neinum íþyngt um of þó svo sparnaðaraðgerðir geti þrýst á um að draga úr mönnun og kröfum til þeirra sem eru í forsvari á skipum.

Ég vil vekja máls á nokkrum atriðum til viðbótar, t.d. skipulagðri endurmenntun í flotanum þar sem verið er að fjalla um menntun og menntunarkröfur og færniskröfur og síðan er stöðugt aukin tækni, nýjungar og ný atriði að koma inn. Hefði ekki átt að vera í frv. setning, ákvæði eða tilmæli um skipulagða endurmenntun fyrir þá starfsmenn sem verið er þarna að semja löggjöf fyrir? Ég tel að svo ætti að vera og skýrar áherslur hvað það varðar. Það ætti að vera hluti af svona þekkingar- og mönnunarkröfum.

Ég tek undir ábendingar og fyrirspurn hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um réttindi þeirra sem hafa langa og farsæla reynslu og kunnáttu án þess að vera með formleg próf, til þeirrar ábyrgðar sem þeir hafa axlað í gegnum árin. Ekki er vikið að því í þessu lagafrv.

Herra forseti. Frv. fer til hv. samgn. þar sem farið verður nánar í einstaka þætti þess. Ég legg áherslu á að hér sé ekki verið að slaka á í neinu hvað varðar kröfur um mönnun, færni, þekkingu og allt annað sem lýtur að öryggismálum um borð í skipum.