Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:46:22 (6223)

2002-03-19 13:46:22# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Þetta er býsna sérkennileg umræða sem hér á sér stað. Í stjórnum er stundum talað um hugtak sem heitir ,,skapandi tregða`` og það er einmitt það hálmstrá sem Vinstri grænir grípa til fyrir utan náttúrlega þau frammíköll sem alltaf eiga sér stað hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. þegar menn eru að reyna að svara fyrir sig í þessari pontu. (Gripið fram í.)

Ég vil taka skýrt fram að það er mjög sérkennilegt að Vinstri grænir hafa nú allt í einu miklar áhyggjur af því að ákveðnir óvissuþættir séu í málinu varðandi Norsk Hydro sem þeir hafa nú yfirleitt ekki viljað tala um.

Fram hefur komið í umræðunni og m.a. frá fulltrúum Samfylkingarinnar að iðnn. hefur lagt sig mjög vel fram um það að vera með vönduð vinnubrögð í þessu máli og ljóst er að iðnn. hefur rætt við fjölmarga aðila í málinu og það hefur líka komið fram að taka þarf ákvörðun um þessa virkjun. Það hefur m.a. komið fram hjá fulltrúum Samfylkingarinnar hérna. Það er því ekkert óeðlilegt í þessu. Það er bara enn einu sinni gripið til hinnar skapandi tregðu hjá Vinstri grænum.