Afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 13:47:59 (6224)

2002-03-19 13:47:59# 127. lþ. 99.91 fundur 412#B afgreiðsla iðnaðarnefndar á virkjanafrumvarpi# (aths. um störf þingsins), MS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[13:47]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom hér upp og gagnrýndi vinnubrögð umhvn. Fyrir umhvn. lá að gefa umsögn um þetta mál. Í málinu lá það fyrir að vinna átti sér stað við mat á umhverfisáhrifum, Skipulagsstofnun hafði úrskurðað í málinu og eftir kærumeðferð hafði umhvrh. úrskurðað í málinu. Þetta lá allt fyrir. Um þetta fjallaði umhvn. og ég vísa því á bug að óeðlileg vinnubrögð hafi átt sér stað í nefndinni. Eftir umfjöllun lá fyrir að nefndarmenn óskuðu ekki eftir fleiri gestum til að fjalla um málið. Umsögn nefndarinnar lá því fyrir. Hún var send til iðnn. eins og óskað hafði verið eftir.

Það að umhvn. eigi að fara að fjalla um efnahagslega þýðingu mála í þessu sambandi er út í hött eins og hv. þm. nefndi hér áðan. Það var ekki hluti af verkefni nefndarinnar þannig að ég vísa þessum athugasemdum hv. þm. algerlega á bug og tek undir það sem fram hefur komið að hv. þm. Vinstri grænna eru að leita með logandi ljósi að hálmstráum til þess að drepa málinu á dreif. Það er athyglisvert hvað sumir þeirra sem koma hér upp eru neistandi af geðillsku út af málinu, sem ég skil út af fyrir sig, en ég vísa alfarið á bug athugasemdum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um slæleg vinnubrögð umhvn.