Fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Jórdaníu

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 14:01:32 (6233)

2002-03-19 14:01:32# 127. lþ. 99.3 fundur 567. mál: #A fullgilding samnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Jórdaníu# þál. 8/127, SJS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[14:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég á aðild að nefndarálitum utanrmn. um þessa samninga og sá ekki ástæðu til að gera þá að umtalsefni hvern fyrir sig. Almennt vil aðeins um þá segja að þeir eru hluti af þeirri viðleitni EFTA-ríkjanna að koma á samningum um fríverslunarkjör við ýmis ríki, aðallega á landsvæðum nálægt EFTA-ríkjunum. Þar með eru auðvitað lönd, eðli málsins samkvæmt, sem liggja utan Evrópusambandsins. Ýmis ný sjálfstæð eða nýlega sjálfstæð lýðveldi í austanverðri Evrópu hafa þar verið fjölmennust í hópnum. En eins og þessi samningur við Jórdaníu sýnir eru menn að teygja sig víðar. Það eru jafnvel í undirbúningi eða lengra komnir, ég veit ekki nákvæmlega hvernig það stendur, samningar við einstök smærri ríki í Asíu.

Auðvitað má velta því fyrir sér hversu langt menn ætla að teygja sig í þessum efnum og hvort það eig að vera markmiðið að Ísland geti í gegnum EFTA staðið að slíkum samningum almennt, jafnvel við lönd utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Það fylgir auðvitað nokkurt umstang svona samningagerð. Það hefur óhjákvæmilega ákveðið utanumhald í för með sér þegar samningunum fjölgar. Gert er ráð fyrir fundum eða nefndarstarfi á vegum samningsaðila, árlegum fundum eða fundum á tveggja ára fresti. Auk þess fylgja þessum samningum sjálfstæðir viðaukar eða bókanir, tvíhliða samningar hvers einstaks EFTA-ríkis og viðkomandi lands. Þannig fylgir þessum samningi eins og öðrum sérstök bókun af Íslands hálfu í samningum við Jórdaníu um landbúnaðarmál.

Í sjálfu sér er ekkert nema gott um allt þetta að segja, herra forseti. Rétt er að menn hafi í huga að þetta er talsverð pappírsgerð og talsverð vinna sem leggst á herðar þessarar tiltölulega litlu skrifstofu sem EFTA-ríkin reka sameiginlega í Sviss og hlýtur að vera nokkuð afkastamikil miðað við það sem hún hefur komið í verk af samningum af þessu tagi á undanförnum árum. Einhver vinna og einhver kostnaður er dæmdur til að fylgja þessu af Íslands hálfu líka vegna fundahalda og tvíhliða samskipta við gagnaðila.

Þegar upp er staðið væri náttúrlega að mörgu leyti hægt að hugsa sér, herra forseti, þetta einfaldara í framtíðinni ef hægt væri að fella þetta mál í einfaldari og samræmdari farveg, eða ef menn teldu þau viðskiptakjör og fríverslunarkjör sem næðust t.d. fram í almennum samningum á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fullnægjandi þannig að ekki þyrfti að standa í sérstakri og sjálfstæðri samningagerð af þessu tagi.

Á móti kemur reyndar að nú er í sjónmáli að þeim samningum fækki talsvert sem í gildi eru milli EFTA-ríkja og annarra, þegar aðildarríkjum Evrópusambandsins fjölgar falla niður þeir sjálfstæðu samningar sem EFTA-ríkin og þar með talið Ísland hafa gert við þau lönd. Því má kannski segja að þegar upp er staðið sé ekki víst að umfang þessara samninga verði mikið meira að nokkrum árum liðnum en það hefur verið um skeið.

Ég vildi koma þessum hugleiðingum á framfæri, herra forseti, af þessu tilefni. Mér finnst að það mál sem þyrfti að taka til skoðunar í rólegheitum sé hversu langt menn ætla að teygja sig í þessum efnum. Er t.d. meiningin, eins og aðeins er byrjað á, að þræða upp tugi ríkja í Asíu og leita eftir sjálfstæðum fríverslunarsamningum og bókunum við þau, jafnvel þó á ferðinni séu, a.m.k. hvað Ísland varðar, hverfandi viðskiptahagsmunir eða í sumum tilvikum engin utanríkisviðskipti? Þá getur náttúrlega komið upp sú spurning hvort Ísland ætli ekki að vera þátttakandi í þeim viðskiptasamningum sem EFTA gerir fyrir hönd hinna EFTA-ríkjanna, auðvitað fyrst og fremst Sviss og Noregs sem þarna vega langþyngst.