Stjórnarlaun í Landssímanum

Þriðjudaginn 19. mars 2002, kl. 15:56:24 (6248)

2002-03-19 15:56:24# 127. lþ. 99.94 fundur 415#B stjórnarlaun í Landssímanum# (umræður utan dagskrár), Flm. JB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 127. lþ.

[15:56]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að Landssíminn skilaði einum milljarði króna í arð á síðasta ári þrátt fyrir verðbréfasukk af hálfu stjórnenda Símans en ekki starfsmanna hans. Það er líka staðreynd og var upplýst á aðalfundi Landssímans að á Íslandi er verð á almennri símþjónustu með því lægsta sem gerist í Evrópu og gerist í heiminum. Það var jafnframt tíundað að þetta væri vandi hans því það væri svo erfitt að selja hann miðað við þessa stöðu. En það er kostur fyrir okkur, þjóðina alla, að eiga Landssímann. Allt það starfsfólk sem starfar hjá Landssímanum á þakkir skildar fyrir þessa stöðu og það getur borið höfuðið hátt þrátt fyrir óreiðuna af hálfu stjórnvalda.

Virðulegi forseti. Ég held að hér sé rétt að ítreka það að hæstv. ráðherra hefur ekki svarað þeim spurningum sem ég bar hér fram. Ég spurði: Var haft samráð innan ríkisstjórnarinnar eða stóð ríkisstjórnarsamþykkt að baki ákvörðun samgrh. um þessa launahækkun til stjórnarmannanna? Enginn framsóknarmaður hefur talað hér í umræðunni enda stóðu þeir sig ekki í stjórn Landssímans vegna þess að launin voru svo lág, ef ég skildi rétt merkingu orða hæstv. samgrh. Og hver er vandi Íslandspósts? Þar sitja líka þingmenn Framsfl.

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þetta er ekkert smámál. Ég er hér með úrklippu sem lýsir miklum ugg og vanþóknun allrar verkalýðshreyfingarinnar á framgöngu hæstv. samgrh. og ríkisstjórnarinnar í þessum málum og telur hún að þetta sé fordæmi fyrir hana til að sækja á því þannig sé hugur hennar til þess sem megi gera til þess að bæta hag, ekki bara stjórnarmanna, heldur landsmanna allra.

Ég krefst þess því að hæstv. samgrh. svari þessu: Var þetta gert með fullu samráði ríkisstjórnarinnar, forsrh. og utanrrh., formanns Framsóknarflokksins, (Forseti hringir.) formanns þeirra þingmanna framsóknarmanna sem hann (Forseti hringir.) var einmitt að deila á?